Tölvuleikur um Jennifer Lopez og Ben Affleck

Söngkonan Jennifer Lopez.
Söngkonan Jennifer Lopez.

Kvikmyndaframleiðandi að nafni Kevin Smith hefur látið búa til tölvuleik sem er sniðinn að þörfum parsins Jennifer Lopez og Bens Afflecks. Smith ákvað að gefa þeim leikinn til þess að þakka þeim fyrir að hafa leikið í nýjustu kvikmyndinni hans, Jersey Girl.

Í leiknum, sem nefnist Jen Saves Ben, reynir persónan Lopez að bjarga Affleck, sem búið er að ræna og hlekkja við vegg í vöruhúsi, frá mannræningjum. Þá kemur Smith fram í leiknum og einnig Matt Damon, sem er vinur Afflecks, og á að vera vont vélmenni, að sögn ananova.com.

Fyrirtækið Powerhouse Animation Studios, sem framleiðir leikinn, segir að Lopez fái þrjár tilraunir til þess að bjarga kærasta sínum áður en mannræningjarnir reyna að koma henni fyrir kattarnef. Ef björgunin tekst endar leikurinn á því að Lopez og Affleck kyssast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert