Bin Laden styður baráttu írösku þjóðarinnar

Osama bin Laden segir árás á Írak jafngilda árás á …
Osama bin Laden segir árás á Írak jafngilda árás á alla múslima. AP

Arabíska sjónvarpsstöðin Al-Jazeera sendi út fyrir stundu viðtal við mann sem sagður er vera Osama bin Laden. Hann lýsir þar stuðningi sínum við baráttu írösku þjóðarinnar og hvetur múslimi hvarvetna til að sameinast og verja írösku þjóðina gegn árás Bandaríkjanna. Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagðist fyrr í dag hafa séð útskrift af viðtali Al-Jazeera sjónvarpsstöðvarinnar við mann sem "virðist vera bin Laden". Þegar þessar fréttir bárust til Bandaríkjanna í kvöld féllu hlutabréf þar verulega í verði.

Osama bin Laden segir í útsendingu sjónvarpsstöðvarinnar Al-Jazeera sýna írösku þjóðinni samstöðu og hvetur alla múslima til að gera það. Hann talaði til almennings í Írak og hvatti til sjálfsmorðsárasa, sérstaklega gegn Bandaríkjunum og Ísraelsmönnum.

Hann segir að Írakar megi vænta loftárása af hálfu Bandaríkjamanna en gaf þeim síðan góð ráð um hvernig best mætti verjast sprengjum Bandaríkjahers. Sagði hann árás á Írak jafngilda árás á alla múslimi og bætti því við að hvert það múslimaríki, sem styðja myndi hernaðaríhlutun Bandaríkjastjórnar, hefði að geyma „trúníðinga“.

Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagðist fyrr í dag hafa séð útskrift af umræddu viðtali Al-Jazeera sjónvarpsstöðvarinnar við mann sem "virðist vera bin Laden". Powell segir þessa upptöku frá Osama bin Laden staðfesta að heiminum stafi hætta af tengslum Íraka við hryðjuverkamenn. Það séu náin tengsl milli hryðjuverkasamtaka Osama bin Ladens og Írak.

Ef rétt reynist þá er þetta í fyrsta sinn síðan Bandaríkjamenn gerðu árás á Afganistan fyrir rúmu ári að sönnun fæst fyrir því að Osama bin Laden er enn á lífi. Sérfræðingar bandarísku leyniþjónustunnar sem hlustuðu á upptökuna í kvöld segjast nokkuð vissir um að það væri Osama bin Laden sem talaði.

Sjónvarpsstöðin Al-Jazeera hefur oft fengið yfirlýsingar eða hljóðrituð skilaboð sem sögð eru frá bin Laden.

Osama bin Laden virðist vera á lífi ef marka má …
Osama bin Laden virðist vera á lífi ef marka má útsendingu arabísku sjónvarpsstöðvarinnar Al-Jazeera í kvöld.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert