Heimili íslenskra ráðherra vöktuð

Lögreglan í Reykjavík hefur aukið viðbúnað við helstu opinberar byggingar og heimili forystumanna ríkisstjórnarinnar í kjölfar átaka í Írak. Einkennisklæddir lögreglumenn gæta stjórnarráðsins og bandaríska sendiráðsins en óeinkenndir bílar og menn fara um borgina allan sólarhringinn og hafa eftirlit með öðrum byggingum og heimilum ráðherra.

Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn í Reykjavík, segir að skemmdarverk á stjórnarráðinu, þegar rauðri málningu var skvett á bygginguna, hafi gefið lögreglunni tilefni til að ætla að fleiri skemmdarverk yrðu framin. Svo virðist þó ekki vera og þarna hafi verið um einangrað tilfelli að ræða. „Við höfum haldið uppi eftirliti á þeim stöðum þar sem ætla mætti að einhver reyndi að skapa usla,“ segir Geir Jón.

Nokkur mótmæli hafa verið í borginni vegna stríðsins í Írak og afstöðu íslenskra stjórnvalda til þess. Hafa þau að mestu farið friðsamlega fram. Ekki er búið að hafa hendur í hári þeirra sem skvettu málningu á stjórnarráðið samkvæmt lögreglu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert