Ákaft sálfræðistríð samhliða vopnuðum hernaði

Fyrir utan hernað í lofti og á landi í Írak er þar háð annars konar stríð sem er ekki síður mikilvægara í augum beggja aðila, en þar er átt við ákaft áróðursstríð sem stjórnvöld í Írak og bandamenn heyja.

Peðin sem teflt hefur verið hvað ákafast fram í þeim sálfræðihernaði eru stríðsfangar - hundruð Íraka sem gefist hafa upp í suðurhluta landsins og svo fimm bandarískir hermenn sem gripnir voru um helgina og sýndir hafa verið í arabísku sjónvarpi við hlið dauðra félaga sinna.

Þyrla sem Írakar segja bónda nokkurn hafa skotið niður með fábrotinni byssu sinni og sýnd var í íraska sjónvarpinu í morgun er og sterkt vopn í höndum Íraka þegar höfð eru í huga áhrifin sem brotlending hennar hefur á almenning í Bandaríkjunum og Bretlandi.

Að öðru leyti hafa báðir aðilar reynt að færa sér stöðu mála sér í nyt og snúa henni sér í hag, hvort sem þar er um að ræða fréttir eða staðhæfingar fulltrúa stjórnvalda.

Bandaríkjamenn héldu til að mynda fram að herir þeirra hafi fundið ætlaða eiturvopnaverksmiðju í sókn til Bagdad og hafa ennfremur reynt að telja mönnum trú um heilsufar Saddams Hussein forseta og ítök hans.

Til mótvægis hafa íraskir embættismenn sakað bandamenn um „stríðsglæpi" og að þeir hafi orðið fyrir miklu mannfalli vegna gífurlegrar mótspyrnu af hálfu hersveita, vopnaðra sveita og jafnvel smábænda.

Af hálfu stjórnvalda í Washington og London hefur því staðfestlega verið haldið fram að herförinni miði vel fram og að allt stefni í að umsátur um Bagdad ahefjist á morgun, þriðjudag.

Þegar hefur milljónum áróðurspésa verið dreift úr flugvélum þar sem íraskir hermenn eru hvattir til uppgjafar og sent liðsforingjum tölvupóst og skorað á þá að rísa upp gegn Saddam og efna til stjórnarbyltingar. Jafnvel hefur því verið haldið fram að bandamenn hafi verið í sambandi, samningaviðræðum, við háttsetta yfirmenn í Lýðveldishernum, úrvals hersveitum Saddams.

Umfram allt hafa ráðamenn í Washington og London ítrekað kallað innrásina herför til að „frelsa" Írak. Ráðamenn í Bagdad hafa aftur á móti útnefnt óvini sína sem „stigamenn" og „leiguliða" og heitið því að drepa bresk-bandarísku „kyrkislönguna".

Í gær, sunnudag, sýndi íraska sjónvarpið myndir af hermönnum og óbreyttum borgurum að leita á bökkum árinnar Efrat í miðborg Bagdad að tveimur breskum flugmönnum sem áttu að hafa varpað sér út úr flugvél sinni yfir borginni og svifið til jarðar í fallhlíf.

Ennfremur hélt sjónvarpsstöðin því fram að fundist hefði ísraelskt flugskeyti sem skotið hefði verið á borgina. Í morgun sýndi íraska sjónvarpið svo ávarp Saddams þar sem hann lofaði þjóð sinni, í guðsnafni, sigri á bandamönnum.

Yfirmenn í höfuðstöðvum bandamanna í Kúveit hafa ekki viljað tjá sig um sálfræðihernaðinn en segja andann í hersveitum sínum „mjög góðann".

Prófessor í sálfræði við Kaliforníuháskóla, Anthony Pratkanis, segir hins vegar að þótt áróðursorrusta bandaríska hersins hafi verið skilvirk sé það mun stærra mál, að Bandaríkjamenn séu að tapa fjölmiðlunarstríðinu að því leyti til að aldrei hafi álit þeirra verið minna meðal annarra þjóða. Almennur stuðningur við herförina í ríkjum sem að henni standa hafi aukist síðustu daga en annars staðar hafi gífurlega fjölmenn mótmæli átt sér stað nær dag hvern þar sem herförin hafi verið fordæmd og mikil reiði í garð Bandaríkjanna verið auðsýnd.

Stríðið í Írak

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert