Þjófnaðaraldan að mestu liðin hjá í Bagdad

Bandarískur hermaður hefur handtekið mann fyrir þjófnað í Bagdad.
Bandarískur hermaður hefur handtekið mann fyrir þjófnað í Bagdad. AP

Svo virðist sem þjófnaðaralda sem gekk yfir Bagdad í kjölfar innrásar bandarískra hermanna í borgina í síðustu viku, sé nú að mestu farin hjá. Þúsundir íraskra lögreglumanna hafa tekið á ný að gæta laga og reglna í borginni ásamt bandarískum hermönnum. Að mestu er kyrrt í borginni en þó braust í morgun út skotbardagi milli arabískra sjálfboðaliða og íraskra bardagamanna í úthverfinu Saddamborg í morgun og féllu tveir í bardaganum.

Íbúarnir í Saddamborg hafa raunar skýrt úthverfið Al-Sadr-borg eftir að stjórn Saddams Husseins var velt úr sessi í síðustu viku en þar búa um 2 milljónir manna. Vatn og rafmagn hefur skort þar eins og annars staðar í Bagdad og klerkar moska á svæðinu virðast vera einu fulltrúar stjórnvalda sem þar eru sýnilegir.

Írakar börðust í morgun við sjálfboðaliða frá Palestínu, Sýrlandi og Líbanon sem komu til Íraks til að berjast við hlið íraskra hermanna gegn innrásarliði Bandaríkjamanna og Breta. Sjónarvottar segja að átökin hafi blossað upp milli tveggja fylkinga sem berjast nú um völdin í Saddamborg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert