Flugmenn beittu ekki réttu verklagi samkvæmt neyðargátlista

Líklegasta orsök þess, þegar flugvél frá flugfélaginu Jórvík missti afl við Grænlandsströnd í fyrra, er að flugvélin hafi verið í klifurflugi á ísingarskilyrðum þannig að ís hlóðst á loftsíur hreyflanna með þeim afleiðingum að þeir misstu afl. Þetta er niðurstaða rannsóknarnefndar flugslysa í Danmörku. Meðverkandi þáttur er að mati Dananna að flugmennirnir beittu ekki réttu verklagi samkvæmt neyðargátlista flugvélarinnar þegar hreyflarnir misstu afl. Þá eru gerðar nokkrar athugasemdir í skýrslu nefndarinnar, meðal annars við undirbúning flugsins.

Um var að ræða flugvélina TF-JVG, sem er af gerðinni Cessna 404, tveggja hreyfla og ellefu sæta. Flugvélin var í leiguflugi frá Reykjavík til Nuuk í Grænlandi 2. ágúst 2002. Um borð voru níu farþegar og tveir flugmenn.

Samkvæmt skýrslu dönsku rannsóknarnefndarinnar hafði flugvélin nýlega klifrað úr 12.000 feta hæð í 13.000 feta hæð til þess að komast upp úr skýjum sem voru á svæðinu þegar hreyflar hennar misstu skyndilega afl.  Í kjölfarið misstu flugmennirnir stjórn á flugvélinni og náðu ekki fullri stjórn á henni aftur fyrr en hún var komin niður í 3000 feta hæð.  Þá var flugvélin yfir sjó skammt frá austurströnd Grænlands. Flugmennirnir snéru þá til Kulusuk og lentu flugvélinni skömmu síðar á flugvellinum þar.

Flugstjóri flugvélarinnar tilkynnti atvikið til flugupplýsingamiðstöðvarinnar í Sondrestrom og sagði flugvélina hafa lent í ísingu sem hafi hlaðist á vængi, stél og loftintök hreyflanna.  Við prófun á flugvélinni eftir atvikið og í flugi hennar frá Kulusuk til Íslands störfuðu hreyflar hennar eðlilega. 

Skýrsla dönsku nefndarinnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert