Gámar geta líka verið flottir

Sandra og Harpa að skreyta gáminn.
Sandra og Harpa að skreyta gáminn. mbl.is/Ólafía Herborg

Flestum unglingum, sem eiga ekki annarra kosta völ en að vera í unglingavinnu á sumrin, finnst lítil tilbreyting í því að reita arfa og snyrta lóðir. Krakkarnir í unglingavinnunni á Egilsstöðum fengu hins vegar það skemmtilega hlutverk að skreyta gám sem er notaður fyrir svið á Ormsteiti sem verður um miðjan ágúst. Þetta verkefni var einskonar umbun fyrir þá sem stóðu sig vel í vinnunni í sumar.

Alls komu níu unglingar að þessu verkefni. Myndefnið var m.a. sótt í austfirskt landslag og má á annari hliðinni sjá Snæfellið í allri sinni dýrð. Hin hliðin skartar hljómsveit sem er skipuð kúm sitjandi á girðingu. Endarnir eru svo hvor öðrum skrautlegri.

Húsasmiðjan á Egilsstöðum styrkti þetta verkefni með því að leggja til málninguna. Hönnunin var í höndum Söndru Mjallar Jónsdóttir, nema í Listaháskólanun en hún er verkstjóri í unglingavinnunni hjá Austur-Héraði í sumarfríinu. Segir Sandra að þeir sem unnu þetta verk hafi verið mjög áhugasamir og tekið þátt í sköpun listaverksins af lífi og sál. Geta svo gestir á komandi Ormsteiti litið listaverkið augum í allri sinni dýrð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert