Hvalaskoðunarsamtökin harma ákvörðun um vísindaveiðar

Stjórn Hvalaskoðunarsamtaka Íslands sendi í morgun frá sér fréttatilkynningu þar sem hörmuð er sú ákvörðun Árna M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra í gær að hefja hvalveiðar í vísindaskyni.

Ályktun Hvalaskoðunarsamtaka Íslands er svohljóðandi:

„Stjórn Hvalaskoðunarsamtaka Íslands harmar þá einhliða ákvörðun íslenskra stjórnvalda að hefja veiðar á hrefnum hér við land án samþykkis Alþjóða hvalveiðiráðsins og okkar helstu viðskiptalanda.

Stjórnin lítur á þessa ákvörðun stjórnvalda sem beina aðför að greininni og benda á að hvergi í heiminum er verið að sýna og skjóta sömu hvalategund eins og áform eru uppi um hér við land, en hvalaskoðun á Íslandi byggir að langmestu leyti á að sýna hrefnur.

Hvalaskoðunarsamtök Íslands hafa ávallt lagt áherslu á að hvalveiðar hér við land verði ekki hafnar nema í sátt við alþjóðasamfélagið og viðeigandi stofnanir. Að öðrum kosti verði meiri hagsmunum fórnað fyrir minni. Stjórnin telur að þessi ákvörðun sjávarútvegsráðherra komi til með að skaða ferðaþjónustuna á Íslandi almennt og hvalaskoðun með beinum hætti. Samtökin krefjast þess að stjórnvöld endurskoði afstöðu sína nú þegar og fresti öllum áformum um hvalveiðar þar til fullt samráð hefur verið haft við Samtök Ferðaþjónustunnar, okkar helstu viðskiptalönd og Alþjóða hvalveiðiráðið."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert