Sveigði skyndilega yfir veginn og steyptist gegnum vegrið ofan í sjó

Stórar dekkjaflygsur, sem taldar eru úr fram dekki flutningabílsins lágu …
Stórar dekkjaflygsur, sem taldar eru úr fram dekki flutningabílsins lágu á brúnni um 25 metrum frá staðnum sem hann fór í gegnum vegriðið. mbl.is/Júlíus

Tveir sjónarvottar voru að því er vöruflutningabíll með tengivagn í eftirdragi fór fram af Borgarfjarðarbrúnni í morgun. Að þeirra sögn var bíllinn á suðurleið en sveigði skyndilega til vinstri, fór yfir eystri akreinina og stakkst gegnum vegrið brúarinnar og út í fjörðinn. Þrír kafarar frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins eru nýkomnir á vettvang með þyrlu Landhelgisgæslunnar en á leið á vettvang eru einnig þrír kafarar björgunarsveita.

Að sögn lögreglunnar í Borgarnesi er enn ekkert vitað um tildrög þess að bifreiðin fór útaf brúnni. Sjónarvottar segjast þó hafa heyrt hvell eins og dekk hafi sprungið og séð bílinn síðan rása til hliðanna á veginum uns hann steyptist gegnum brúarhandriðið. Stór flygsa úr dekki lá á brúnni um 25 metra frá þeim stað sem vöruflutningabíllinn skall á vegriðinu og fór útaf.

Slysið varð um stundarfjórðungi upp úr klukkan 10 en slysstaðurinn er nær syðri enda brúarinnar. Fór bíllinn á kaf og grillir aðeins í gám á tengivagninum. Ekki er vitað um afdrif bílstjórans eða hvort hann var einn í bifreiðinni.

Björgunaraðgerðir eru hafnar en á vettvang eru komnir tveir stórir kranabílar og bátar björgunarsveitarinnar Brákar í Borgarnesi. Björgunarsveitir frá Akranesi og tvær af höfuðborgarsvæðinu voru einnig kallaðar út klukkan 10:26.

Veginum yfir Borgarfjarðarbrúna var lokað þegar í stað og er umferð beint um Borgarfjarðarbraut og gömlu brúna á Hvítá.

Kafarar athafna sig á slysstað við Borgarfjarðarbrúna.
Kafarar athafna sig á slysstað við Borgarfjarðarbrúna. mbl.is/Júlíus
mbl.is
Kafarar athafna sig yfir bílnum en skyggni er lítið í …
Kafarar athafna sig yfir bílnum en skyggni er lítið í mjólkurhvítum Borgafirðinum. mbl.is/Júlíus
Björgunaraðgerðir á Borgarfjarðarbrúnni nýhafnar.
Björgunaraðgerðir á Borgarfjarðarbrúnni nýhafnar. mbl.is/Hrafnkell Daníelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert