Talibanar reyna að stöðva nám stúlkna í Afganistan

Stúlkur sitja undir brunninni tjaldgrindinni og lesa námsbækur.
Stúlkur sitja undir brunninni tjaldgrindinni og lesa námsbækur. AP

Kveikt var í grunnskóla skammt frá Kabúl, höfuðborg Afganistans, í nótt og skildu brennuvargarnir eftir bréf þar sem þeim, sem fallast á að kenna afgönskum stúlkum, er hótað öllu illu en bæði piltar og stúlkur ganga í skólann. Talið er að stuðningsmenn talibana hafi verið þarna að verki. Tvö herbergi í skólahúsinu og tvö tjöld sem notuð hafa verið fyrir kennslustofur, eyðilögðust en kennsla hófst þó í morgun eins og ekkert hefði í skorist og sátu börnin á jörðinni undir berum tjaldgrindunum og hlýddu á kennara sína.

Þegar talibanar stjórnuðu Afganistan var stúlkum bannað að ganga í skóla en talibanar freistuðu þess að stofna það sem þeir kölluðu „hreint" íslamskt ríki. Talibanar voru hraktir frá völdum eftir að Bandaríkjamenn og fleiri þjóðir gerðu innrás í Afganistan í árslok árið 2001 en enn er talsverð andstaða meðal íhaldssamra Afgana við að stúlkur mennti sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert