Carew settur út úr norska landsliðshópnum fyrir að lemja Riise

Norðmenn hafa tekið John Carew út úr landsliðshópi sínum sem mætir Portúgölum í vináttuleik annað kvöld. Ástæðan er að Carew sló John Arne Riise eftir æfingu í gærkvöldi en þá var landsliðið í langferðabíl á leið frá æfingunni á hótel. Norska knattspyrnusambandið ákvað í framhaldinu að Carew yrði settur út úr hópnum og tók hann fyrstu vél í morgun frá Ósló til Rómar en hann er atvinnumaður á Ítalíu.

John Arne Riise átti þó upphafið að þessu öllu saman því hann hrækti nokkrum sinnum að Carew á æfingunni umræddu og meðal annars á annan skó Carews. Orðaskipti þeirra urðu harkalegri og harkalegri og endaði það með því að þeim lenti saman en voru skildir að. Carew fannst hann eiga eitthvað vantalað við Riise og sló hann í rútunni. Þar með fór hann yfir strikið að mati sambandsins og var hann því settur út úr landsliðshópnum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert