Stefnt að lækkun virðisaukaskatts af veggjaldi í Hvalfjarðargöngunum

Hvalfjarðargöngin voru til umræðu á Alþingi í morgun.
Hvalfjarðargöngin voru til umræðu á Alþingi í morgun. mbl.is

Í upphafi þingfundar á Alþingi í morgun fór fram umræða utan dagskrár um veggjald í Hvalfjarðargöngunum. Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, sagði að stefnt væri að því að lækka virðisaukaskattinn af veggjaldinu sem nú er 14% og það væri á stefnuskrá stjórnarflokkanna. Þá sagði hann að það þyrfti að leita allra leiða til að lækka veggjaldið og vel kæmi til greina að lækka tryggingagjaldið. Hann taldi ekki tímabært að taka yfir rekstur Spalar.

Málshefjandi var Jóhann Ársælsson, þingmaður Samfylkingarinnar, og sagði hann það réttlætismál að lækka veggjaldið í göngunum sem kæmi hvað verst við íbúa Vesturlands sem þyrftu að sækja skóla og vinnu til höfuðborgarsvæðisins. Hann spurði hvort ríkið ætti ekki að taka yfir rekstur Hvalfjarðarganganna og eins hvort það væri eðlilegt að ríkið hefði tekjur af göngunum í formi virðisaukaskatts.

Sturla sagði samstarfið við Spöl hafi reynst vel og taldi vel koma til greina að halda áfram samstarfinu og að fyrirtækið tæki að sér fleiri verk í samgöngumálum, eins og byggingu Sundabrautar. „Ég tel að við eigum að hafa gott samstarf við fyrirtækið og leita leiða til að lækka þetta gjald og horfa til framtíðar og nýta þennan kost, með gjaldtöku, til áframhaldandi uppbyggingar í samgöngukerfinu,“ sagði Sturla.

Nokkrir þingmenn tóku til máls og voru flestir sammála um að lækka þyrfti veggjaldið og þá sérstaklega fyrir þá sem nota göngin mest.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert