Segir umræðu um ríkisráðsfund upphlaup út í himinblámann

Davíð Oddsson forsætisráðherra.
Davíð Oddsson forsætisráðherra. mbl.is

Davíð Oddsson forsætisráðherra sagði í upphafi þingfundar á Alþingi í dag að umræðan um ríkisráðsfundinn, sem haldinn var á sunnudag vegna 100 ára afmælis heimastjórnar, væri upphlaup og algjörlega út í himinblámann.

Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, spurði við upphaf þingfundar hvort eðlilegt væri að boða til fundar í ríkisráði án þess að láta forseta lýðveldisins vita af fundinum fyrirfram. Sagði Guðjón að sér þætti sem umræðan um ríkisráðsfundinn bæri nokkurn keim af deilum milli forsætisráðherra og forsetans.

Davíð sagði að boðun ríkisráðsfundarins hefði verið nákvæmlega í samræmi við stjórnskipunarreglur og venjur ríkisins og ekki að nokkru leyti frábrugðin þeim. „Það er þannig til að mynda þegar handhafar forsetavalds staðfesta lög í fjarveru forseta - sem þeir hafa gert, ekki tugum sinnum heldur hundruðum sinnum - þá er aldrei við þau tækifæri haft samband við forsetann eða forsetaskrifstofuna. Það eru mikilvægustu verkefni forsetans. Og þegar ákveðið er að halda ríkisráðsfund vegna 1. febrúar, reglugerðar um Stjórnarráðið sem átti 100 ára afmæli þann dag, er að sjálfsögðu haft samband við handhafa forsetavalds sem gegna stöðu forsetans. Allt annað er alveg fráleitt að halda fram að sé einhver regla.“

Davíð sagði að handhafar forsetavaldsins hefðu fengið frá forseta Íslands, föstudaginn 23. janúar þar sem fjarveran var boðið og sjálfur sagðist hann hafa séð bréfið á mánudeginum. „Ég hafði ekki hugmynd um að forseti Íslands væri farinn til útlanda. Hann hafði ekki rætt það við forsætisráðuneytið. Hann vissi mjög vel um fyrsta febrúar enda kom það fram í hans áramótaávarpi eins og menn vita. Þannig að þetta upphlaup núna er algjörlega úti í himinblámann.“

Guðjón A. Kristjánsson og Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingar, vildu vita hvenær ríkisráðsfundurinn hefði verið boðaður. Davíð Oddsson svaraði því til að fundurinn hefði verið boðaður með tiltölulega skömmum fyrirvara.

„Í þessu tilviki var fundur boðaður þegar ljóst var að samkomulag milli ráðuneyta um nýja reglugerð fyrir stjórnarráð Íslands var tilbúin. Fyrr var ekki fundurinn boðaður og hann var boðaður með tiltöluleg skömmum fyrirvara.“

Síðan sagði Davíð: „Ef menn vilja halda því fram hér í þekkingarleysi sínu - sem hefur verið í fjölmiðlum, nokkurn vegin algjört - að það eigi að kalla forseta heim fyrir sjö mínútna ríkisráðsfund, þá ber með sama hætti í hvert skipti sem handhafar skrifa upp á lög að hafa samband við forseta og biðja hann um að skjótast heim.“

Davíð bætti því við að búið væri að snúa öllu á haus með því að spyrja hvers vegna ekki hefði verið haft samband við forseta Íslands. „Hin raunverulega spurning er þessi,“ sagði Davíð, „hví kaus forseti að vera erlendis í einkaerindum, 1. febrúar á eitt hundrað ára afmæli lýðveldisins? Og svo vil ég nú spyrja: Hví í ósköpunum gerir Samfylkingin það glappaskot að taka þetta vitlausa mál upp á sínar herðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert