Þekking á sögu Íslands reyndist bandarískum pilti happadrjúg

Þekking á sögu Íslands kom sér vel fyrir 14 ára bandarískan skólapilt því hún varð til þess að hann vann landafræðikeppni Georgíuríkis í Bandaríkjunum.

Robert Nuttall frá borginni Decatur vann keppnina er hann vissi svarið við lokaspurningunni en þar var spurt hvaða land milli Grænlandssunds og Noregshafs hefði á sínum tíma lotið yfirráðum Noregs og Danmerkur.

Ísland, sagði Nuttall og hafði sigur í keppninni sem fram fór í bænum Milledgeville á föstudag. Fráfarandi meistari, Martin Ocon frá bænum Cumming, sagði Grænland og varð því annar í keppninni.

Að launum fær Nuttall þátttökurétt á bandaríska landfræðimeistaramótinu í Washington í lok maí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert