Fer líklega ekki í brúðkaupið

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins verður Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, ekki viðstaddur konunglegt brúðkaup í Kaupmannahöfn í dag, eins og hann hafði ráðgert, og verður því á landinu áfram eftir að hann breytti óvænt ferðaáætlun sinni frá Mexíkó á miðvikudag.

Dorrit Moussaieff forsetafrú kom til Kaupmannahafnar eftir hádegi í gær og var viðstödd hátíðarsýningu í Konunglega leikhúsinu í gærkvöld til heiðurs Friðriki, krónprins Dana, og Mary Donaldson, heitkonu hans. Á sama tíma var Ólafur Ragnar viðstaddur frumsýningu í Borgarleikhúsinu á leikritinu um Don Kíkóta.

Í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi vildi Örnólfur Thorsson hjá forsetaembættinu ekki upplýsa hvernig dagskrá forsetans yrði háttað. Engar ákvarðanir hefðu verið teknar um ferðalag forsetans en tilkynning yrði send út til fjölmiðla frá embættinu í dag.

Dorrit Moussaieff sækir eins og aðrir brúðkaupsgestir hádegisverð í boði Danadrottningar um borð í Dannebrog í dag. Sjálf athöfnin hefst í Vorrar frúar kirkju kl. 14 að íslenskum tíma og eftir að brúðhjónin eru búin að heilsa dönsku þjóðinni halda þau til brúðkaupsveislu í höll konungsfjölskyldunnar í Kaupmannahöfn.

Ólafur Ragnar er 61 árs í dag, 14. maí. Fyrir ári gekk hann að eiga heitkonu sína, Dorrit Moussaieff, og eiga þau því eins árs brúðkaupsafmæli í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert