Fjölmiðlafrumvarpið samþykkt á Alþingi

Þröng var á þingpöllum Alþingis í dag þegar atkvæðagreiðsla fór …
Þröng var á þingpöllum Alþingis í dag þegar atkvæðagreiðsla fór fram um fjölmiðlafrumvarpið og urðu margir frá að hverfa. mbl.is/Júlíus

Frumvarp um breytingu á útvarpslögum og samkeppnislögum, fjölmiðlafrumvarpið svonefnda, var samþykkt um klukkan 14 í dag með atkvæðum gegn 32 atkvæðum gegn 30 en einn sat hjá, Jónína Bjartmarz, þingmaður Framsóknarflokks, sem sagðist ekki sannfærð um að frumvarpið stæðist ákvæði stjórnarskrárinnar. Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokksins greiddi atkvæði gegn frumvarpinu. Breytingartillögur við frumvarpið höfðu áður verið samþykktar með 33 atkvæðum þingmanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gegn 24 atkvæðum þingmanna Samfylkingar og Frjálslynda flokksins en sex sátu hjá og voru það þingmenn Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs og Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokks.

Í athugasemd um atkvæðagreiðsluna vitnaði Davíð Oddsson, forsætisráðherra, orðrétt í ummæli Ólafs Ragnar Grímssonar, núverandi forseta Íslands, frá árinu 1995 um nauðsyn þess að setja reglur eða jafnvel lög til að koma í veg fyrir óeðlileg valdatengsl og hringamyndun á sviði fjölmiðlunar. Sagðist Davíð gera orð Ólafs Ragnars að sínum og sagði að hefðu þau verið rétt árið 1995 væru þau enn réttari nú.

Atkvæðagreiðslan um frumvarpið fór fram með nafnakalli og fóru þingmenn stjórnarandstöðunnar þungum orðum um frumvarpið í atkvæðaskýringum og sögðu að verið væri að koma á opinberri ritskoðun. Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði í atkvæðaskýringu, að aðeins væri eitt væri við frumvarpið að gera og síðan reif hann þingskjalið í ræðustólnum.

Áður en atkvæðagreiðslan hófst tóku fulltrúar flokkanna og einstakir þingmenn til máls um atkvæðagreiðsluna. Bryndís Hlöðversdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að allt benti til þess að málið þyrfti frekari skoðunar við af hálfu ríkisstjórnarinnar og ekkert réttlætti þá fljótaskrift og hraksmánarlegu vinnubrögð sem viðhöfð hefðu verið í málinu. Sagði hún að frumvarpið hefði ekki fengið viðunandi skoðun og engin þeirra breytingartillagna, sem ríkisstjórnin hefði lagt fram, breytti nokkru um það sem máli skipti: því að frumvarpið muni að öllum líkindum leiða til fábreytni í stað aukinnar fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði og ganga þannig þvert gegn markmiðum sínum. Það bryti að öllum líkindum gegn ákvæðum stjórnarskrár og EES-reglum, það væri sértækt og beindist gegn einu fyrirtæki, það væri atlaga að tjáningarfrelsinu og tilraun Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks til að koma á opinberri ritskoðun. „Frumvarp ríkisstjórnarinnar getur aldrei orðið grundvöllur góðrar lagasetningar um lýðræði og tjáningarfrelsi. Samfylkingin segir því þvert nei," sagði Bryndís.

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs sagði að ferill málsins væri einn sá dapurlegasti sem þingsagan á seinni áratugum geymi. Hann sagði að upphaflega hefði litið út fyrir að þokkaleg samstaða myndi nást um það innan þings og utan að setja skynsamlegar, raunhæfar og sanngjarnar reglur til að tryggja fjölbreytta, óháða og öfluga fjölmiðlun í landinu. Það mál hefði lent í gíslingu valdhroka og offors formanna stjórnarflokkanna. Sagði Steingrímur að ömurlegt væri að sjá fótgönguliðana koma járnaða í bak og fyrir þannig að hrikti í hlekkjunum og greiða frumvarpinu atkvæði. Sagði Steingrímur að hvorki síamstvíburar íslenskra stjórnvalda, Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, né fyrirtækin Baugur og Norðurljós, muni hrekja VG af leið í því að nálgast þetta mál í samræmi við mikilvægi þess á málefnalegum og yfirveguðum nótum. Sagði Steingrímur m.a. að flokkurinn hefði ekki hafnað því að setja takmarkandi reglur um eignarhald svo fremi sem þær séu sanngjarnar en ekki afturvirkar en raski ekki efnahagslegum undirstöðum fjölmiðlafyrirtækja. „Þetta frumvarp er ótækt og öll vinnubrögð í kringum það óverjandi. Breytingartillögurnar nú enn einu sinni gera upphaflegu hrákasmíðina eftir sem óaðgengilega," sagði Steingrímur.

Magnús Þór Hafsteinsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, sagði að sl. haust hefði þingmenn VG og Frjálslynda flokksins ásamt Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki að þingsályktunartillögu þar sem lagt var til að Alþingi kysi nefnt fulltrúa allra þingflokka sem m.a. skyldi kanna starfsskilyrði fjölmiðla og huga að því hvort þörf væri á lagasetningu eða öðrum aðgerðum. Þetta starf skyldi fara fram í samstarfi við hagsmunaaðila. Stjórnarflokkarnir hefðu síðan ákveðið þvert á þessar yfirlýsingar að fara í þetta verkefni án samráðs við stjórnarandstöðu og hagsmunaaðila. Niðurstaðan væri svo þetta frumvarp, sem væri illa ígrundað og unnið í trássi við meirihluta þjóðarinnar sem hafni frumvarpinu.

Bjarni Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði að á þingmönnum hvíldi sú skylda að bregðast við þeirri óæskilegu þróun sem orðið hefði í eignarhaldi á fjölmiðum. Frumvarpið sem fyrir lægi hefði tekið breytingum í meðförum þingsins og komið hefði verið til móts við sjónarmið aðila. Því lægi nú fyrir frumvarp sem hamlaði gegn óæskilegum áhrifum á fjölmiðlamarkaði og það myndi til lengri tíma litið leiða til meiri fjölbreytni í fjölmiðlun en ekki fábreytni, eins og gagnrýnendur þess segðu.

Hjálmar Árnason, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að með afgreiðslu frumvarpsins væri verið að stíga fyrstu skrefin til að fylgja eftir tillögum fjölmiðlanefndarinnar. Um leið væri verið að stíga skref til að koma í veg fyrir samþjöppun á fjölmiðlamarkaði. Með því móti væri verið að bregðast við ákalli þingmanna allra flokka á síðustu misserum. Viðsnúningur þessara sömu þingmanna nú væri því óskiljanlegur. Fyrir lægi jafnframt, að næstu skref yrðu að styrkja Ríkisútvarpið og efla sjálfstæði þess og einnig að styrkja sjálfstæði einstakra fréttastofa. Með því væri verið að skapa umgjörð, sem ætti að koma í veg fyrir það sem kalla mætti Berlusconi-ástand á íslenskum fjölmiðlamarkaði.

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokks, sagðist ekki útiloka að rétt kunni að vera að setja löggjöf um einstaka þætti á þessum markaði að vel athuguðu máli. Hins vegar teldi hann ekki rétt að setja sérstaka löggjöf um eignarhald á fjölmiðlafyrirtækinu því samkeppnislög ættu að tryggja að ekki yrði samþjöppun að ræða á þeim markaði frekar en öðrum. Þá væru ýmsir annmarkar á frumvarpinu, m.a. sá að málið sneiði mjög hart að stjórnarskránni í ýmsum atriðum varðandi atvinnufrelsi, tjáningarrétt og eignarrétt og ekki væri rétt stefna að Alþingi láti reyna til hins ýtrasta á þanþol stjórnarskráarinnar. Þá fælust í frumvarpinu takmarkanir á mannréttindum og sagði Kristinn að jafnvel þótt að dómstólar komist síðar að því að þeirri niðurstöðu að það væri innan marka stjórnarskrár þá væri hann þeirrar skoðunar að of langt væri gengið og í ranga átt. Sagði Kristinn einnig, að þetta frumvarp myndi leiða til fábreyttari fjölmiðlaflóru en verið hefði að undanförnu.

Davíð Oddsson, forsætisráðherra, las hluta af ræðu sem Ólafur Ragnar Grímsson, núverandi forseti Íslands, flutti á Alþingi árið 1995. Þar sagði Ólafur Ragnar: „Hringamyndanir af hálfu fjölmiðla ganga þvert á nútíma hugsun á vettvangi lýðræðis. Þannig hefur ýmsum lýðræðisríkjum eins og í Bandaríkjunum og Evrópu, verið sett í lög margvísleg ákvæði sem koma í veg fyrir hringamyndanir. Ákvæði sem koma í veg fyrir að sömu aðilarnir geti haft ráðandi vald á dagblöðum, á sjónvarpsstöðvum, á útvarpsstöðvum. Engin slík lög eru í gildi á Íslandi... Ég vil þakka hæstvirtum menntamálaráðherra fyrir þau svör sem hann gaf mér og tel að í þeim felist mikilvæg viðurkenning á því að þessi mál þarf að taka til sérstakrar könnunar og skoða rækilega með opnum huga hvort ekki þurfi að setja reglur og jafnvel lög sem tryggja trúverðugleika fjölmiðlunar í landinu og koma í veg fyrir óeðlileg valdatengsl og hringamyndun á þessu sviði. Það eru auðvitað gildar ástæður fyrir því, að lýðræðisríki, bæði í Evrópu og Bandaríkin, hafi talið nauðsynlegt að setja slík lög og slíkar reglur vegna þess, að máttur hinna stóru á þessu sviði er slíkur, þótt um leið hafi tæknin opnað fyrir hina smáu, að það er ekki hægt í lýðfrjálsu ríki að sætta sig við slíkt vald. Á sama tíma og menn eru að reyna að breyta stjórnarskrá í átt að meiri mannréttindum, er nauðsynlegt að tryggja þetta."

Sagðist Davíð gera þessi orð Ólafs Ragnars Grímssonar að sínum og sagði að hafi þau verið rétt þá væru þau ennþá réttari núna. Hann bætti við að þegar einokun Ríkisútvarpsins var afnumin og stofnað til frjáls útvarps hefði enginn þingmaður Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Kvennalista treyst sér til að styðja það að einkaaðilar eða fyrirtæki fengju að útvarpa. Þeim rökum hefði verið beitt að menn væri ekki út af fyrir sig á móti efninu heldur á móti málsmeðferðinni, hraðanum og offorsinu. „Kannast einhver við orðalagið? Kannast einhver við hvernig menn reyna að forðast efnislega umræðu?" spurði Davíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert