Ronald Reagan fyrrverandi Bandaríkjaforseti látinn

Ronald Reagan og Míkhaíl Gorbatsjov kveðjast fyrir utan Höfða við …
Ronald Reagan og Míkhaíl Gorbatsjov kveðjast fyrir utan Höfða við lok Reykjavíkurfundarins í október 1986. ap

Ronald Reagan, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, er látinn á 94. aldursári, að því er talsmaður Bandaríkjastjórnar hefur staðfest. Hann hefur um árabil þjáðst af Alzheimers-veiki en fyrir nokkrum dögum hrakaði honum mjög. Reagan hafði ekki komið fram opinberlega um langt árabil vegna heilsuleysis.

Reagan lést á heimili sínu í Kaliforníu í dag. Hann var forseti Bandaríkjanna á árunum 1981 til 1989 og náði hærri aldri en nokkur annar sem setið hefur á forsetastóli í Bandaríkjunum.

Reagan skýrði frá því fyrir tæpum áratug, eða í nóvember 1994, að hann þjáðist af hrörnunarveikinni Alzheimer en hún leggst á heilafrumur og veldur minnisleysi.

Upp frá þeim tíma hafði hann haldið sig á heimili sínu í Los Angeles og notið umönnunar eiginkonu sinnar Nancy og nánustu fjölskyldu.

Ronald Reagan varð fertugasti forseti Bandaríkjanna er hann sigraði í forsetakosningunum í nóvember 1980, 69 ára að aldri, en svo gamall maður hafði aldrei verið kjörinn forseti. Hann hafði djúpstæð áhrif bæði innan lands og á alþjóðavettvangi á átta ára valdatíma sínum. Fyrir frumkvæði hans og atbeina leið Kalda stríðið undir lok.

Reykjavíkurfundurinn hápunkturinn á ferli Reagans?

Ekki hvað síst fyrir að ná samkomulagi við Míkhaíl Gorbatsjov leiðtoga Sovétríkjanna um verulega fækkun langdrægra kjarnorkuvopna. Því samkomulagi náðu þeir á fundi sínum í Reykjavík í október árið 1986. Ákváðu þeir að hittast miðja vegu milli Washington og Moskvu og þykir Reykjavíkurfundurinn æ síðan einhver mikilvægasti áfangi á sviði afvopnunarmála.

Þar ræddu forsetarnir af alvöru tillögur um að eyða öllum gerðum kjarnorkuvopna en áform Bandaríkjanna um geimvarnir, svonefnd stjörnustríðsáætlun Reagans, stóð í veginum og var helsta ágreiningsefnið. Fundarins í Reykjavík er þó ætíð minnst fyrir að hafa markað vatnaskil í afvopnunarviðræðum risaveldanna og í framhaldi af honum sömdu þau um eyðingu ýmissa gerða kjarnavopna.

Contra-hneykslið blettur á forsetatíð Reagans

Önnur þáttaskil urðu árið 1986 í forsetatíð Reagans því hann neyddist til að játa að hafa samþykkt fyrir sitt leyti hergagnaaðstoð við Íran, þvert á yfirlýsta stefnu stjórnar hans. Í ljós kom síðar að tekjurnar af þessari vopnasölu, 30 milljónir dollara, hafði verið notaðar til aðstoðar skæruliðum sem áttu í átökum við heri sandinistastjórnarinnar í Nicaragua.

Einn af nánustu samverkamönnum forsetans, Oliver North ofursti, var rekinn vegna málsins. John Poindexter aðmíráll sagði af sér vegna aðildar sinnar að því og þjóðaröryggisráðgjafi Reagans, Robert McFarlane, freistaði sjálfsmorðs vegna málsins.

Reagan lét í veðri vaka að hafa haft litla vitneskju um hvað átt hefði sér stað. Svonefnd Tower-nefnd sem falin var rannsókn hneykslisins þvoði hendur forsetans af ásökunum um að hafa logið blákalt að þjóðinni um málið en gagnrýndi hann fyrir sinnuleysi.

Sérstök nefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings felldi hins vegar síðar þann dóm að forsetinn hafi alfarið borið ábyrgð á hneykslismálinu og sagði að hann hefði átt að vita hvað þjóðaröryggisráðgjafar hans hefðust að.

Skýrsla þingnefndarinnar þótti mikill áfellisdómur fyrir Reagan og stjórnunarhætti hans. Þannig þótti hann bæði vinna pólitíska sigra sem ósigra á þeim átta árum sem hann sat í Hvíta húsinu. En þegar hann hvarf þaðan við lok valdatíma síns nam fjárlagahallinn hærri upphæð en samanlagður halli á ríkissjóði Bandaríkjanna í valdatíð 39 forvera hans.

íþróttafréttamaður og kvikmyndaleikari

Reagan fæddist ekki með silfurskeið í munni. Hann er sonur áfengissjúks skókaupmanns í Tampico í Illinoisríki. Hann vann fyrst fyrir sér sem íþróttafréttamaður á útvarpsstöð. Sneri hann sér síðan að kvikmyndaleik, hlaut fyrst samning hjá Warner Brothers árið 1937 og lék í alls 50 kvikmyndum um dagana. Reagan náði þó aldrei mikilli frægð sem kvikmyndastjarna og gaf sjálfum sér þá einkunn að hann hafi verið „Errol Flynn B-myndanna.“

Á árunum 1966 til 1974 gegndi Ronald Reagan starfi ríkisstjóra Kaliforníu og þótti standa sig vel í starfi þótt íhaldssamur væri. Hann stefndi þá þegar á forsetastólinn, reyndi fyrst að hljóta útnefningu Repúblikanaflokksins 1968 en mistókst. Hlaut þó betri útkomu en honum hafði verið spáð.

Hann reyndi aftur 1976 en Gerald Ford foresti hafði betur. Fjórum árum seinna rættist draumur Reagans loks og hann bar sigurorð af Jimmy Carter, sem unnið hafði slaginn við Ford fjórum árum áður.

Sýnt banatilræði

Reagan hafði ekki setið nema tvo mánuði í embætti er honum var sýnt banatilræði. Hæfði ein kúlan úr byssu tilræðismannsins Johns Hinkleys hann í brjóstkassann. Glettni hans greiddi leiðina að hjörtum æ fleiri en stutt höfðu hann í forsetakjörinu er hann sagði í stríðni við læknana sem gerðu að skotsárum hans: „Ég vona að þið séuð repúblikanar.“

Við konu sína Nancy gaf hann sannkallaða kúrekaskýringu á sárum sínum: „Elskan, ég gleymdi að beygja mig,“ sagði hann er hún kom á sjúkrahúsið rétt eftir tilræðið.

Ronald Reagan les yfir ræðu í skrifstofu sinni í Hvíta …
Ronald Reagan les yfir ræðu í skrifstofu sinni í Hvíta húsinu í október 1987. ap
Pólitískir fjendur en samherjar á sviði afvopnunarmála; Ronald Reagan og …
Pólitískir fjendur en samherjar á sviði afvopnunarmála; Ronald Reagan og Míkhaíl Gorbatsjov, fyrrverandi forseti Sovétríkjanna. Myndin er tekin á búgarði Reagans í Kaliforníu, Rancho del Ceilo, í maí 1992. Þá voru þeir báðir horfnir af valdastóli. ap
Reagan hleður byssu sína sem lögreglustjóri í kvikmyndinni „Law and …
Reagan hleður byssu sína sem lögreglustjóri í kvikmyndinni „Law and Order“ frá 1953. ap
Fimm forsetar Bandaríkjanna við Reagan-safnið í Simidal í Kaliforníu í …
Fimm forsetar Bandaríkjanna við Reagan-safnið í Simidal í Kaliforníu í nóvember 1991. Frá vinstri: Geroge Bush, Reagan, Jimmy Carter, Gerald Ford og Richard Nixon. ap
Tilraun var gerð til að ráða Reagan af dögum fyrir …
Tilraun var gerð til að ráða Reagan af dögum fyrir utan hótel í Washington 30. mars árið 1981. Öryggisverðir og leyniþjónustumenn voru fljótir til og ýttu honum inn í forsetabifreiðina. ap
Ronald og Nancy Reagan í grafreit bandarískra hermanna sem féllu …
Ronald og Nancy Reagan í grafreit bandarískra hermanna sem féllu í sókn bandamanna inn í Frakkland gegn herjum nasista. Sú aðgerð hófst í dag fyrir 60 árum og er myndin tekin við Omahaströnd í Normandí 5. júní 1984 er 40 ár voru liðin frá innrásinni í Normandí. ap
Íþróttafréttamaðurinn Ronald Reagan að störfum á útvarpsstöðinni WHO í Des …
Íþróttafréttamaðurinn Ronald Reagan að störfum á útvarpsstöðinni WHO í Des Moines í Iowa 1937. Var hann valinn besti hafnaboltafréttamaður útvarpsstöðvaí Miðvesturríkjum Bandaríkjanna. Í verðlaun hlaut hann ferð til Hollywood. ap
Ronald Reagan sver eið sem nýkjörinn ríkisstjóri Kaliforníu 2. janúar …
Ronald Reagan sver eið sem nýkjörinn ríkisstjóri Kaliforníu 2. janúar 1967. ap
Reagan ræðir við Margaret Thatcher, forsætisráðherra Bretlands, við upphaf opinberrar …
Reagan ræðir við Margaret Thatcher, forsætisráðherra Bretlands, við upphaf opinberrar heimsóknar hennar til Bandaríkjanna í febrúar árið 1981. ap
Ronald Reagan sver embættiseið öðru sinni sem forseti Bandaríkjanna, í …
Ronald Reagan sver embættiseið öðru sinni sem forseti Bandaríkjanna, í janúar 1985. ap
Reagan með eiginkonu sinni Nancy á lóð Hvíta hússins í …
Reagan með eiginkonu sinni Nancy á lóð Hvíta hússins í Washington í desember 1986. Heldur forsetafrúin á hundinum Rex. ap
Reaganhjónin ásamt Deng Xiaoping í Peking 28. apríl 1984. Haldast …
Reaganhjónin ásamt Deng Xiaoping í Peking 28. apríl 1984. Haldast Deng og Nancy í hendur. ap
Ronald Reagan og Míkhaíl Gorbatsjov skiptast á samningum um eyðingu …
Ronald Reagan og Míkhaíl Gorbatsjov skiptast á samningum um eyðingu meðaldrægra kjarnaflauga við athöfn í Hvíta húsinu 8. desember 1987, rúmu ári eftir Reykjavíkurfundinn. ap
Margaret Thatcher, forsætisráðherra Bretlands, og Ronald Reagan voru nánir samherjar. …
Margaret Thatcher, forsætisráðherra Bretlands, og Ronald Reagan voru nánir samherjar. Myndin er tekin við upphaf fundar þeirra í Englandi í júní 1982. ap
Bandarísku forsetahjónin fengu Karl Bretaprins og Díönu prinsessu í heimsókn …
Bandarísku forsetahjónin fengu Karl Bretaprins og Díönu prinsessu í heimsókn í nóvember 1985. Hér ræðast þau við í vesturálmu Hvíta hússins. ap
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert