Femínistar seldir hæstbjóðanda

Feminístar, bæði karlar og konur, gengu kaupum og sölum á uppboði í Kolaportinu í gær sem Femínistafélag Íslands stóð fyrir. Hæstbjóðandi tryggði sér þannig klukkutíma með þeim femínista sem hann keypti til skrafs, en einnig var boðið upp á þann möguleika að gefa ættingja eða t.d. þingmanni femínistann.

"Þetta var okkar leið til að gagnrýna að fólk gangi kaupum og sölum eins og hver annar neysluvarningur. Við vorum að benda á fáránleikann í því. Okkur finnst nauðsynlegt að það gleymist ekki að þetta er vandamál í heiminum," segir Arnar Gíslason, ráðskonan í karlahópi Femínistafélagsins. Hann segir að uppboðið tengist einnig baráttu hópsins gegn vændi og vilja femínistar leggja áherslu á að næsta haust verði vændisfrumvarpið tekið fyrir á Alþingi og afgreitt.

Kona sem keypti Þorgerði Einarsdóttur kynjafræðing, sem var einn femínistanna sem voru boðnir upp, fékk gjafakort og ætlar að gefa Halldóri Ásgrímssyni utanríkisráðherra klukkutímaspjall við Þorgerði. "Hún ætlar að senda Þorgerði til hans í gjafaumbúðum og fá hann til að spjalla við hana um femínisma, þar sem hann er að fara að taka við forsætisráðherrastólnum."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert