Bush og Pútín fagna ályktun öryggisráðsins um Írak

Vladímír Pútín lítur á klukkuna en George W. Bush horfir …
Vladímír Pútín lítur á klukkuna en George W. Bush horfir á. AP

George W. Bush, Bandaríkjaforseti, fagnaði því í kvöld að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna skyldi í kvöld samþykkja samhljóða ályktun þar sem lýst er stuðningi við að Írakar fái fullveldi að nýju í lok þessa mánaðar. Vladímír Pútín, Rússlandsforseti, sagði að samþykkt ályktunarinnar væri mikilvægt skref, en þeir Bush ræddust við á Sea Island í Georgíuríki í Bandaríkjunum þar sem leiðtogafundur átta helstu iðnríkja heims hefst á morgun.

„Atkvæðagreiðslan í öryggisráði SÞ var mikill sigur fyrir írösku þjóðina. Alþjóðsamfélagið sýndi að það stendur þétt við hlið Íraka," sagði Bush í kvöld.

„Það eru engar ýkjur að segja, að þetta var mikilvægt skref fram á við," sagði Pútín við blaðamenn.

Bush sagði, að öryggisráðið styddi bráðabirgðastjórnina sem tekur við völdum í Írak 1. júlí, það styddi frjálsar kosningar og að alþjóðlegt herlið verði áfram í landinu. „Ég met aðstoð þína, Vladímír, við að fá þessa ályktun samþykkta í öryggisráðinu í dag," sagði Bush, sem vonast til að leiðtogafundur iðnríkjanna verði til þess að bæta samband Bandaríkjanna við Frakka og Þjóðverja sem hafa verið andvígir hernaðaraðgerðunum í Írak.

Öryggisráðið samþykkti með 15 samhljóða atkvæðum ályktun þar sem lýst er stuðningi við nýja ríkisstjórn Íraks og settur er tímarammi fyrir lýðræðislegar kosningar á næsta ári. Í ályktuninni felst alþjóðleg viðurkenning á bráðabirgðastjórninni sem á að taka við um næstu mánaðamót en í henni felst einnig heimild fyrir bandarískar hersveitir til að vera áfram í Írak samkvæmt ósk íraskra stjórnvalda og grípa til allra nauðsynlegra aðgerða til að berjast við uppreisnarmenn í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert