Bush hélt upp á áttræðisafmælið með fallhlífarstökki

George Bush lendir ásamt fallhlífahermanni í Texas í kvöld.
George Bush lendir ásamt fallhlífahermanni í Texas í kvöld. AP

George Bush, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, hélt upp á áttræðisafmæli sitt með því að stökkva í fallhlíf úr 3900 metra hæð yfir forsetabókasafni sínu í College Station í Texas. Bush ætlaði upphaflega að stökkva einn en vegna þess að vindur var talsvert mikill var ákveðið að fallhlífarhermaður stykki með forsetanum fyrrverandi. Bush stökk einnig í fallhlíf ásamt kennara þegar hann var 75 ára.

„Þetta hefur verið frábær dagur," sagði Bush eftir að hafa farið smá kollhnís í lendingunni en hann tók æfingastökk í morgun. „Tilfinningin er ótrúleg." Hann sagðist gjarnan vilja reyna bráðlega að stökkva án aðstoðarmanns. Barbara kona hans sagðist hins vegar ætla að reyna að fá hann til að hætta fallhlífarstökkvum. „Ég er enn að velta því fyrir mér hvenær hann ætlar að fullorðnast," sagði hún.

Þegar Bush nálgaðist jörðina veifaði hann til um 4 þúsund manns sem fylgdust með, en í þeim hópi voru meðal annarra Barbara kona hans, Jeb Bush, sonur þeirra og Míkhaíl Gorbatsjof, fyrrum forseti Sovétríkjanna.

Þetta var hápunktur tveggja daga afmælishátíðar sem hófst í gær í Texas. Þá komu um 5200 manns saman á hafnaboltavelli til að hylla afmælisbarnið, þar á meðal George, sonur Bush og núverandi Bandaríkjaforseti og John Major, fyrrum forsætisráðherra Bretlands.

Gorbatsjof sagði í gær að Bush hefði reynt að fá sig til að stökkva í fallhlíf. „George mun stökkva og ég mun bíða á jörðinni með blómvönd," sagði hann.

Bush stökk fyrst í fallhlíf þegar hann var tvítugur herflugmaður í síðari heimsstyrjöldinni en hann þurfti að stökkva út flugvél sinni yfir Kyrrahafi. Árið 1992 stökk hann síðan í fallhlíf yfir Yuma í Arizona en hann hafði heitið sjálfum sér því að hann myndi einn dag stökkva í fallhlíf úr flugvél sér til skemmtunar.

George Bush þurrkar svitann af enninu eftir fallhlífarstökkið.
George Bush þurrkar svitann af enninu eftir fallhlífarstökkið. AP
George og Barbara Bush í afmælisveislunni í Texas í gær.
George og Barbara Bush í afmælisveislunni í Texas í gær. AP
George Bush, fyrrum Bandaríkjaforseti, og fallhlífahermaðurinn Bryan Schnell lenda við …
George Bush, fyrrum Bandaríkjaforseti, og fallhlífahermaðurinn Bryan Schnell lenda við við Bush bókasafnið í College Station í Texas. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert