Játar að hafa stungið Jucevicius

Vaidas Jucevicius.
Vaidas Jucevicius.

Grétar Sigurðarson einn sakborninga í líkfundamálinu játaði fyrir dómi í dag að hafa stungið lík Vaidasar Juceviciusar þrisvar sinnum með hnífi, en neitaði sök þess efnis að hafa stungið líkið fimm sinum eins og honum er gefið að sök.

Mál ákæruvaldsins gegn Grétari og meðákærðu Jónasi Inga Ragnarssyni og Tómasi Malakauskas var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag og lýstu þeir afstöðu sinni til sakarefnisins.

Sakir gagnvart þeim þremur varðar í fyrsta lagi fíkniefnasmygl með því að hafa staðið að innflutningi á 223,67 grömmum af metamfetamíni sem Vaidas Jucevicius flutti hingað til lands innvortis 2. febrúar.

Grétar og Jónas neituðu báðir sök hvað þennan ákærulið varðaði en Tómas játaði sök.

Í öðru lagi er allir ákærðu sakaðir um brot gegn lífi og líkama fyrir að koma Vaidasi ekki til hjálpar í lífsháska eftir að hann veiktist vegna mjógirnisstíflu, af völdum fíkniefnapakkninga, sem leiddi hann til dauða að morgni 6. febrúar. Allir neita sök hvað þennan lið varðar, en brot gegn lífi og líkama sk. almennum hegningarlögum varðar allt að 2 ára fangelsi.

Í þriðja lagi eru ákærðu sakaðir um illa meðferð á líki Vaidasar með því að hafa flutt líkið til Neskaupstaðar þar sem þeir sökktu því í sjó. Í hegningarlögum segir að ef nokkur raskar grafarhelgi eða gerist sekur um ósæmilega meðferð á líki, þá varði það sektum eða fangelsi allt að 6 mánuðum. Þeir Tómas og Jónas neita sök hvað þetta varðar en Grét ar játaði með þeirri athugasemd að hann hefði stungið líkið þrisvar sinn um með hnífi en ekki fimm sinnum.

Í fjórða lagi er Grétar einn ákærður fyrir brot á vopnalögum með því að hafa lásaboga hnífa og gorma kylfu og neitar hann sök þar að mestu.

Fjölda vitna verður leiddur fyrir dóminn þegar aðalmeðferð málsins hefst í haust, en gert er ráð fyrir að aðalmeðferðin standi yfir 18.-19. október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert