Nýtt fjölmiðlafrumvarp úrskurðað þinglegt

Halldór Blöndal, forseti Alþingis.
Halldór Blöndal, forseti Alþingis.

Halldór Blöndal, forseti Alþingis, úrskurðaði í upphafi þingfundar í dag að nýtt stjórnarfrumvarp um eignarhald á fjölmiðlum væri þinglegt. Var úrskurðurinn kveðinn upp samkvæmt beiðni formanna þingflokka stjórnarandstöðunnar. Fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna lýstu vonbrigðum með úrskurðinn og sögðust vera honum algerlega ósammála. Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, sagði m.a. að frumvarpið væri stjórnskipulegur óskapnaður og Guðmundur Árni Stefánsson, þingmaður Samfylkingarinnar sagði að taka ætti kosningaréttinn af fólki með frumvarpinu. Fyrsta umræða um frumvarpið stendur nú yfir á Alþingi. Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, mælti fyrir frumvarpinu í fjarveru Davíðs Oddssonar, forsætisráðherra.

Halldór sagði að óskað hefði verið eftir að hann kvæði upp úrskurð um hvort frumvarpið, sem er um breytingar á útvarpslögum og samkeppnislögum, uppfylli formskilyrði sem þingsköp Alþingis og stjórnarskrá setja um lagafrumvörp. Sagði Halldór að frumvarpið vari lagt fram í samræmi við ákvæði stjórnarskrár um stjórnarfrumvarp enda hefði forseti Íslands, eins og reglur geri ráð fyrir, fallist á tillögu ráðherra um að frumvarpið yrði lagt fyrir Alþingi. Þá sagði Halldór ótvírætt að frumvarpið væri í réttum búningi. Loks sagði Halldór augljóst, að sú grein þingskapa um að lagafrumvarp, sem fellt hafi verið megi ekki bera upp á sama þingi, ætti ekki við um frumvarpið. Þá væru engin önnur ákvæði þingskapa því til fyrirstöðu að frumvarpið kæmi á dagskrá.

Steingrímur J. Sigfússon sagðist telja að frumvarpið væri óþingtækt því í því væri fólgin fyrirætlan um að fara á svig við stjórnarskrána með því að hafa af fólki stjórnarskrárbundinn rétt til að kjósa um stjórnarfrumvarp sem forseti hefði synjað staðfestingar og þannig fært staðfestingarvaldið til þjóðarinnar. Einnig væri frumvarpið ótækt að formi til því það fæli í sér að í einu og sama frumvarpinu væru felld úr gildi efnisatriði og sett inn aftur.

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, sagði að ekki væri verið að hafa af þjóðinni neinn rétt. Stjórnarandstaðan hefði m.a. sagt að það ætti að afnema þessi lög og verið væri að nema þau úr gildi. Síðan væri flutt frumvarp sem fæli í sér tvær mjög veigamiklar breytingar.

Guðjón A. Kristjánsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, lýsti sig ósammála úrskurði forseta Alþingis og sagði að frumvarpið sem nú ætti að fjalla um væri sama mál og ætti að fella úr gildi. Sá tilgangur væri einn með málatilbúnaðnum, sem Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, hefði raunar lýst yfir á fundi í gær, að koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um fjölmiðlalögin. Það væru menn á afar hæpinni braut enda að taka stjórnarskrárbundin réttindi af fólki.

Geir H. Haarde sagði að það frumvarp sem nú hefði verið sett á dagskrá yrði til þess að afstýra að haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla á grundvelli 26. greinar stjórnarskrárinnar í skugga fullkominnar réttaróvissu um form atkvæðagreiðslunnar sjálfrar og fyrirkomulag. Það væri í ljós leitt, að 26. grein stjórnarskrárinnar væri svo vanbúin af hálfu stjórnarskrárgjafans að það væri ekki óhætt að fara út í þjóðaratkvæðagreiðslu á grundvelli þess ákvæðis. Sú spurning Steingríms, um það hvort málið væri komið í óafturkræft ferli með synjun forseta Íslands, væri enn frekari staðfesting þess hversu óljóst þetta ákvæði væri. Sagðist Geir telja að úrskurður forseta þingsins væri réttur og ekkert væri óeðlilegt við að afturkalla þessi lög enda hefði það verið nefnt af hálfu bæði fræðimanna og þingmanna stjórnarandstöðunnar að slíkt væri eðlilegt.

Lúðvík Bergvinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að eina réttaróvissan í málinu væri innan ríkisstjórnarinnar vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki fengið því framgengt að svindla á þjóðinni í þessum kosningum með því að krefjast þess að 44% atkvæðisbærra manna yrðu að fella frumvarpið. Spurði Lúðvík hvernig stjórnarskrárgjafanum hefði átt að detta það í hug á sínum tíma, að það myndi vefjast fyrir nokkrum manni árið 2004 að boða til einna kosninga og láta á það reyna hvort meirihluti eða minnihluti landsmanna væru fylgjandi einhverju máli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert