Davíð Oddsson: Tel að það sé vilji allra að settar verði reglur um fjölmiðla

Davíð Oddsson ræðir við fréttamenn eftir ríkisstjórnarfund í dag.
Davíð Oddsson ræðir við fréttamenn eftir ríkisstjórnarfund í dag. mbl.is/Þorkell

Davíð Oddsson, forsætisráðherra, sagði eftir ríkisstjórnarfund í dag, að hann teldi að það væri vilji allra að setja lög um fjölmiðla, hvort sem það verði á þessu þingi eða næsta haust. „Ég held að það telji allir, nema þeir sem eru hrein handbendi aðila úti í bæ, að það eigi að setja reglur um fjölmiðla," sagði hann en fjölmiðlalög, sem sett voru í vor, verða væntanlega felld úr gildi og frumvarp sem nú liggur fyrir Alþingi, dregið til baka. Davíð vildi ekki tjá sig um þá niðurstöðu, sem fékkst um málið milli stjórnarflokkanna, og sagði að málið væri á forræði allsherjarnefndar Alþingis.

Davíð svaraði spurningum fréttamanna eftir ríkisstjórnarfundinn. Hann var spurður hvort stjórnarandstöðunni yrði boðið að koma að vinnu um ný fjölmiðlalög og sagði hann þá að ríkisstjórnin hefði komið fram með hverja sáttatillöguna á fætur annarri en stjórnarandstaðan hefði ekkert lagt til málanna.

„Það er athyglisvert, að það hefur enginn fréttamaður spurt stjórnarandstöðuna hvað hún hafi lagt til málanna... Við breyttum fyrra frumvarpinu 4-5 sinnum og komum með nýja tillögu núna en stjórnarandstaðan hefur ekkert lagt til málanna. Hún hringir bara upp í Norðurljós og fær að vita stöðuna og svo liggur hún fyrir,“ sagði Davíð.

Spurt: „En er ekki stjórnarandstaðan búin að leggja fram frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslu og frumvarp um fjölmiðlalög í upphafi síðasta þings?“
Davíð: „Jú, en ég veit ekki hvað það kemur þessu máli nákvæmlega við?“
Spurt: „Það er þeirra framlag, er það ekki?“
Davíð: „Eins og ég segi, við erum búin að breyta þessu frumvarpi mjög oft.“
Spurt: „Voru þær breytingar ekki fyrst og fremst að kröfu Framsóknarflokksins?“
Davíð: „Þær breytingar voru allan tímann til mildunar á frumvarpinu og reyndar var það nú svo, eins og menn hafa tekið eftir, að síðasta breytingin var sú sem Steingrímur J. Sigfússon hafði gert kröfu um, bara 100%, samt var hann á móti.

Spurt: „Eftir á að hyggja, er verr af stað farið en heima setið, hefðuð þið átt að standa öðru vísi að þessu?“
Davíð: „Nei, það tel ég ekki vera. Ég tel að stjórnmálamenn eigi að setja fram þau sjónarmið sem þeir hafa og berjast fyrir þeim og reyna að koma þeim fram. Ég tel að þegar rykið hefur sest munum við sjá hverjir hafa staðið málefnalega að málunum og hverjir ekki.“

Leiðinlegt að forseti skyldi ákveða að ráðast á Alþingi

Davíð var spurður hvort hann gengi stoltur og ánægður frá starfi sínu sem forsætisráðherra í haust eftir það sem á hafi gengið í sumar. Hann svaraði, að þegar þar að kæmi hefði hann gegnt starfinu í 13 ár og fjóra mánuði og það hefði margt drifið á dagana. „Þetta mál er ekki eitt það stærsta, en auðvitað er það leiðinlegt að á þeim tíma skyldi Ólafur Ragnar Grímsson ákveða að ráðast á Alþingi Íslendinga; auðvitað hefði ég ekki viljað að það gerðist," sagði Davíð.

Engin skilyrði

Davíð sagði ennfremur að engin skilyrði væru sett í samkomulaginu um að draga fjölmiðlafrumvarpið til baka. „Við blöndum engum öðrum málum í þetta mál. Það eru engin skilyrði í gangi,“ sagði forsætisráðherra.

Spurt: „Gengur þú keikur frá þessu samkomulagi?“
Davíð: „Já, ég er bara hress.“
Spurt: „Lítur þú á þetta sem persónulegan ósigur fyrir þig, nú var þér mjög hugleikið að þetta mál færi í gegn?“
Davíð: „Ertu nú viss um það að málið fari ekki í gegn. Ég hygg að það sé vilji allra að setja lög um fjölmiðla, hvort sem það gerist á þessu þingi eða næsta haust.“
Spurt: „Þannig að þú ert sáttur við þessi málalok þegar öllu er á botninn hvolft?“
Davíð: „Ég er afskaplega sáttur maður.“

Hann sagði að þing kæmi saman á morgun og líklega yrði málið klárað á fimmtudag eða föstudag þar sem að undirbúa þyrfti þinghúsið undir innsetningu forseta sem er 1. ágúst. Aðspurður sagðist hann sjá fyrir endann á málinu en bætti við að ekki væri hægt að stjórna því hvort menn vildu tala lengur eða skemur.

Þá sagði Davíð aðspurður að sú ákvörðun um að hann hætti sem forsætisráðherra í haust stæði. Þá sagðist hann ekki vera búinn að ákveða hvað hann taki sér fyrir hendur í haust og sagði að þetta mál hefði engin áhrif á það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert