Fá bætur vegna símhlerunar lögreglu

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt íslenska ríkið til að greiða tveimur karlmönnum 50 þúsund krónur hvorum í bætur fyrir að lögregla hleraði síma þeirra vegna gruns um að þeir væru að rækta kannabisplöntur á bæ í Húnavatnssýslu. Mennirnir reyndust ekkert viðriðnir slík mál.

Lögreglan á Blönduósi fékk dómsúrskurð fyrir því í febrúar á síðasta ári að hún mætti hlusta á og hljóðrita símtöl úr tilgreindum símanúmerum sem mennirnir tveir voru skráðir fyrir. Mönnunum var síðan tilkynnt um það í júní, að umræddur dómsúrskurður hefði verið kveðinn upp og að heimildum um hlustun og hljóðritun hefði verið beitt frá 28. febrúar til 20. mars árið 2003. Einnig var tilkynnt með bréfunum að rannsókn málsins hefði verið hætt.

Í stefnu sinni sögðu mennirnir, að lögreglan hafi af einhverjum ástæðum aðhyllst þá hugmynd á undanförnum árum að þeir fremdu brot gegn fíkniefnalögum vegna sögusagna um það. Samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Norðurlands vestra virtist ótilgreindur heimildarmaður hafa fullyrt við lögreglu á grundvelli fullyrðinga ótilgreinds heimildarmanns þess heimildarmanns að brot gegn fíkniefnalögum hafi átt sér stað að bænum þar sem mennirnir búa. Í úrskurðinum komi ekki fram að hinn beini heimildarmaður hafi verið yfirheyrður, og ekki heldur hinn sagði óbeini heimildarmaður.

Sögðust stefnendurnir telja það sér til vanvirðu og skapraunar að liggja undir grun, sögusögnum eða ásökunum af því tagi sem lögregla virtist hafa haldið fram við héraðsdóm. Lögregla eða önnur yfirvöld hafi ekki leitað skýringa eða upplýsinga um grun sinn hjá stefnendum sjálfum, eins og þeim hljóti að hafa verið í lófa lagið að gera. Stefnendum hafi aldrei verið tjáð á hverju meintur grunur lögreglu hafi verið byggður eða talinn byggður.

Af hálfu ríkisins kom fram að lögreglunni hefðu borist upplýsingar frá tveimur ótengdum aðilum um að verið væri að rækta kannabisplöntur að býlinu þar sem mennirnir búa. Annar aðilinn hafi áður veitt lögreglunni upplýsingar sem hefði stuðlað að því að fíkniefnamál í héraðinu hafi verið upplýst og lögreglan hafi metið þessa aðila sem mjög áreiðanlega og trausta. Lögreglunni hafi því borið lagaskylda til að hefja rannsókn á málinu. Dómari hafi metið gögn og upplýsingar frá lögreglustjóranum þannig að rökstuddur grunur hafi verið fyrir hendi og skilyrðum laga um meðferð opinberra mála hafi verið fullnægt.

Héraðsdómur Reykjavíkur segir í niðurstöðu sinni, að ekki sé fallist á þá málsvörn að réttmæt ástæða hafi verið til að beita símhlerununum enda séu meðal skilyrða fyrir því að þeim verði beitt, að rannsókn beinist að broti sem varðað geti að lögum átta ára fangelsi eða að ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir krefjist þess. Verði því að telja að ekki hafi verið eins og á stóð nægilegt tilefni til að beita umræddum aðgerðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert