Neyðarástand í miðbæ Vestmannaeyja vegna þakplötufoks

Brak úr þakinu í miðbæ Vestmannaeyja.
Brak úr þakinu í miðbæ Vestmannaeyja. Eyjafréttir/Sæþór

Stór hluti þaks svonefnds IMEX húss við Strandveg í Vestmannaeyjum fauk nú á þriðja tímanum. Sögðu sjónarvottar að þakhlutinn hefði farið af í einu lagi og megi þakka fyrir að ekki urðu slys á fólki. Þá er járn byrjað að flettast af Kaffi Kró sem er í Tangahúsinu við Strandveg. Mikið norðan rok er í Eyjum og gengur á með mjög miklum hviðum. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni þar er búið að kalla út björgunarsveitir og smiði til að negla aftur þök þar sem fleiri þök eru byrjuð að losna. Einhverjar skemmdir hafa orðið á bílum og vitað er um einn bíl undir brakinu af Ímexhúsinu og er bíllinn, sem er nýr, sennilega ónýtur.

Neyðarástand er í miðbænum því að þakplötur eru á víð og dreif. Lögreglan er mætt á staðinn og hafa lokað mesta hættusvæðinu og gera má ráð fyrir að björgunarsveitin mæti fljótlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert