Forseti Póllands telur litlu skipta hvort Bush eða Kerry sigrar

Alexander Kwasinewski, forseti Póllands vildi ekki svara því hvort hann …
Alexander Kwasinewski, forseti Póllands vildi ekki svara því hvort hann vildi heldur að Bush eða Kerry sigraði í kosningunum. AP

Aleksander Kwasinewski, forseti Póllands, sagðist í dag telja að Pólverjar muni reyna að eiga „góða samvinnu“ við Bandaríkjaforseta, hvort sem George W. Bush, Bandaríkjaforseti, eða öldungadeildarþingmaðurinn John Kerry, fer með sigur af hólmi í forsetakosningum í Bandaríkjunum í næstu viku.

Pólverjar eru meðal helstu bandamanna í Íraksstríðinu. Kwasinewski sagðist ekki sjá að breyting yrði á samskiptum Pólverja og Bandaríkjamanna eftir því hver úrslit kosninganna yrðu.

Kwasinewski var í hópi þeirra þjóðarleiðtoga sem studdu innrás Bandaríkjamanna í Írak hvað ákafast. Sagðist hann sannfærður um að hin erfiða staða í Írak myndi ekki gera Kerry kleift að fara með bandarískt herlið frá Írak fyrr en stjórn Bush gæti gert.

„Ég tel ekki að tengsl Póllands og Bandaríkjanna muni breytast ef Kerry vinnur,“ sagði hann í viðtali við pólska ríkisútvarpið. „Ég er sannfærður um að þótt John Kerry verði forseti, muni stefna Bandaríkjanna ekki breytast mikið,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert