Gullfiskar dafna í baðlóninu við Húsavík

Húsvísk fangasiklíðudama (7 sm.) sem veiddist þann 4. nóvember 2004.
Húsvísk fangasiklíðudama (7 sm.) sem veiddist þann 4. nóvember 2004. nna.is

Fuglaáhugamaðurinn Gaukur Hjartarson tilkynnti Náttúrustofu Norðausturlands fyrir skömmu, að hann hefði fundið torkennilega fiska í baðlóninu sunnan Húsavíkur. Taldi hann að um fangasiklíður, Cichlasoma nigrofasciatum, væri að ræða, en slíkir fiskar eru algengir búrfiskar hér á landi. Rannsóknir Náttúrustofu leiddu í ljós að um þessa fiska var að ræða, að því er fram kemur á heimasíðu hennar, nna.is.

Þar segir: „Náttúrustofan fór á stúfana til þess að kanna málið og lagði tvær smáfiskagildrur í lónið. Ætlunin var að athuga hvort fiskarnir hefðu hugsanlega náð að fjölga sér þarna, hvort um væri að ræða fleiri tegundir og hvort einhver munur væri á búsvæðum (grjót vs. gróður). Alls veiddust 11 fiskar og allir voru þeir fangasiklíður. Voru þeir af öllum stærðum allt frá því að vera um 1 cm upp í 9 cm. Svo virtist því sem þessar fangasiklíður hafi náð að fjölga sér í lóninu og lifi bara ágætu lífi.

Í grjótinu veiddust bara stórir fiskar (7 - 9 cm) en í gróðrinum voru þeir minni. Af þessu veiðiátaki virðist því sem ungviðið haldi sig meira í gróðrinum. Fangasiklíður heita á ensku „Convict cichlids“ en búningur þeirra þykir minna á fangabúninga fyrr á tímum, gráblár með svörtum rákum. Fangasiklíður geta orðið allt að 12 cm langar. Kjörhiti fangasíklíða er talin vera 24°C, en það er ekki fjarri vatnshita baðlónsins sem er affall frá Orkuveitunni. Líklegra er talið að fangasiklíðurnar hafi borist í baðlónið fyrir tilstuðlan manna frekar en að þær hafi borist hingað með fuglum eða krókódílum frá Ameríku.

Hafa ber í huga að það er mjög varhugavert að sleppa framandi lífverum út í íslenska náttúru og í rauninni á slíkt ekki að eiga sér stað. Þó svo að í þessu tilviki sé nokkuð ljóst að fiskarnir munu ekki dreifa sér annað vegna þess hversu háðir þeir eru háum vatnshita, þá er alltaf hætta á því að tilkoma þeirra inn í vistkerfið geti haft neikvæð áhrif. Hættan felst aðallega í sjúkdómum og sníkjudýrum sem fiskarnir gætu hugsanlega borið með sér eða þróað í nýju vistkerfi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert