Eftirlitsmenn segja kosningar í Úkraínu ekki uppfylla lýðræðislegar kröfur

Tugir þúsunda manna hafa komið saman í miðborg Kænugarðs í …
Tugir þúsunda manna hafa komið saman í miðborg Kænugarðs í dag til að krefjast þess að Viktor Júsénkó verði lýstur sigurvegari í forsetakosningunum í gær. AP

Kosningaeftirlitsmenn á vegum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE), Evrópuþingsins og NATO, segja að síðari hluti forsetakosninganna í Úkraínu í gær hafi ekki uppfyllt alþjóðlegar lýðræðislegar kröfur. Segjast eftirlitsmennirnir hafa orðið vitni að því að stjórnvöld í landinu misnotuðu aðstöðu sína í þágu Viktors Janúkóvíts, forsætisráðherra.

Þegar búið er að telja atkvæði frá rúmlega 99% kjörstaða hafði Janúkóvíts fengið 49,42% atkvæða en Viktor Júsénkó 46,69%, að sögn yfirkjörstjórnar. Hefur forskot Janúkóvíts aukist eftir því sem á talninguna hefur liðið. Tvær útgönguspár, sem birtar voru í gærkvöldi, bentu hins vegar til þess að Júsénkó hefði farið með sigur af hólmi.

Eftirlitsmenn gagnrýndu fyrri umferð kosninganna einnig harðlega og sögðu að ríkisfjölmiðlum hefði m.a. verið beitt í þágu Janúkóvíts. „Ég verð að endurtaka það sem ég sagði fyrr þremur vikum: Þessar kosningar uppfylltu ekki mörg þeirra alþjóðlegu skilyrða sem sett eru fyrir lýðræðislegum kosningum," sagði Bruce George, sem fór fyrir eftirlitsmönnunum. „Það hefur ekki verið bætt úr ágöllunum. Þá hélt ríkið áfram að misnota vald sitt í þágu forsætisráðherrans og fjölmiðlar voru áfram afar hlutdrægir."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert