Olía hefur mest áhrif á umhverfið í tengslum við þorskveiðar

Olía er helsti áhrifaþátturinn á umhverfið í tengslum við þorskveiðar.
Olía er helsti áhrifaþátturinn á umhverfið í tengslum við þorskveiðar.

Niðurstaða rannsóknarverkefnis Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins og Iðntæknistofnunar um vistferilsgreiningu á þorskafurðum er í grundvallaratriðum sú að olían hafi mest áhrif á umhverfið. Fram kom í máli Árna M. Mathiesens, sjávarútvegsráðherra, að verkefnið hafi snúist um að gera tilraun til að finna út hver séu umhverfisáhrif þorskveiða, allt frá miðum til maga, en umhverfisáhrif fiskveiða væri málefni sem muni verða fyrirferðameira í framtíðinni um heim allan.

Árni sagði í ræðu sinni við upphaf ársþing Sjómannasambands Íslands í dag, að þetta væri fyrsta rannsókn þessarar tegundar sem gerð væri á umhverfisáhrifum íslensks sjávarútvegs en aðferðirnar þurfi að laga sérstaklega að sjávarútvegi. Stöðluðu aðferðirnar gangi fyrst og fremst út frá starfsemi á landi en ekki á sjó og engar upplýsingar liggi fyrir um þætti sem gætu skipt máli svo sem áhrif á hafsbotninn.

Sagði Árni myndu beita sér fyrir frekari vinnu á þessu sviði og meðal annars láta reyna á hvort aðrar Norðurlandaþjóðir hafi áhuga á að koma að slíku starfi. Norðurlöndin séu samanlagt stærsti útflytjandi af fiski í heiminum og Íslendingar ásamt öðrum Norðurlandabúum verði að hafa frumkvæði í því að þróa aðferðir við mat á umhverfisáhrifum sjávarútvegs, sem taki á réttan hátt tillit til allra aðstæðna í sjávarútveginum sem máli skipta.

„Á okkur hvílir sú skylda að hafa frumkvæði vegna þess að annars getum við átt á hættu að umræðan og mat á umhverfisáhrifum verði leidd og aðferðir þróaðar, af öfgafullum umhverfissamtökum með fordóma í garð sjávarútvegsins. Slíkt gæti haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir íslenskan sjávarútveg og þjóðarhag," sagði Árni.

Hann sagði að annað atriði þessu tengt sé að ákvarðanir um friðun hafsvæða hafi hingað til fyrst og fremst verið teknar á grundvelli samsetningar á fiski á einstökum svæðum. Hafi þá bæði verið horft til stærðar og tegundasamsetningar. Hins vegar viti menn ekki nægilega mikið um hvaða áhrif landslagið á botninum hafi varðandi viðgang fiskistofnanna. Hafrannsóknastofnun hafi hafið rannsókn á botninum í kjölfar þess að stofnunin eignaðist nýtt rannsóknaskip með sérhæfðum búnaði til slíkra rannsókna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert