Bono, Blair og Gates ítreka nauðsyn á aðstoð við Afríku

Bill Gates, Bono og Tony Blair á gangi í Davos …
Bill Gates, Bono og Tony Blair á gangi í Davos í morgun. AP

Rokkstjarnan Bono, kaupsýslumaðurinn Bill Gates og Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, undirstrikuðu allir í pallborðsumræðum á ársfundi World Economic Forum í Davos í Sviss í dag, að nauðsynlegt væri að taka höndum saman og leggja fátækum Afríkuþjóðum lið. Sögðu þeir að árið í ár yrði að marka tímamót í þeim efnum.

Blair ítrekaði fyrirheit um að Afríkuríki fái umtalsverða fjárhagslega aðstoð á þessu ári. Bono sagði að leiðtogar átta helstu iðnríkja heims bæru á herðum sér vonir heillar kynslóðar.

„Það er hægt að lýsa þessu sem ævintýri, en það er ekki hægt að lýsa þessu þannig að þessir átta leiðtogar burðist með klett. Kynslóð okkar vill að hennar verði minnst fyrir eitthvað. Kynslóð okkar vill að hennar verði minnst fyrir eitthvað annað en stríð gegn hryðjuverkamönnum," sagði Bono. „Við viljum hugsanlega láta minnast okkar sem kynslóðarinnar sem batt enda á örbyrgð," sagði Bono, sem ásamt Blair og Gates, Thabo Mbeki, forseta Suður-Afríku, Olesegun Obasanjo, forseta Nígeríu og Bill Clinton, fyrrum forseta Bandaríkjanna, tók þátt í umræðum um málið.

Fram kom í umræðunum að einn milljarður Afríkubúa byggi við örbirgð. Blair sagði að Bretar ætluðu að leggja fram 45 milljónir punda til að útvega flugnanet til að verja milljónir Afríkubúa fyrir moskítóflugum sem bera með sér malaríu.

Bono sagði að ástandið í Afríku gerði það að verkum, að þar væri frjór jarðvegur fyrir öfgamenn; þar væru 10-12 staðir sem gætu orðið annað Afganistan.

Bæði Bono og Gates báru lof á aðgerðir iðnríkjanna átta, sem Bretar fara fyrir í ár. Ríkin hafa beitt sér fyrir auknu hjálparstarfi, viðskiptum og heilsugæslu í Afríku. „Ég er mjög bjartsýnn en ég er sammála því að í ár þurfa að verða tímamót," sagði Gates.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert