Sellafield-stöðin getur ekki gert grein fyrir 30 kg af plútoníum

Kjarnorkuendurvinnslustöðin í Sellafield.
Kjarnorkuendurvinnslustöðin í Sellafield.

Kjarnorkuendurvinnslustöðin í Sellafield á vesturströnd Englands getur ekki gert grein fyrir 30 kg af plútoníum en það nægir til að búa til sjö eða átta kjarnorkusprengjur. Þetta kom í ljós við árlega endurskoðun á birgðum allra breskra kjarnorkuvera, að sögn blaðsins The Times.

Breska fréttastofan Press Association hefur eftir talsmanni Sellafield-stöðvarinnar, að alltaf sé misræmi á milli bókfærðra birgða og raunverulegra birgða og ekkert bendi til þess að efnið hafi verið fjarlægt úr stöðinni.

Talsmaðurinn sagði að líklegasta skýringin á þessu misræmi væri hinar flóknu reglur, sem notaðar eru til að mæla efnið sem fellur til við endurvinnsluna. Þegar talsmaðurinn var spurður hvort ástæða væri til að hafa áhyggjur af 30 kg af plútoníum svaraði hann: „Ég myndi ekki segja að við hefðum miklar áhyggjur vegna þess að þetta er aðeins bókhaldsatriði."

Samkvæmt reglum Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar má efni, sem ekki er hægt að gera grein fyrir, ekki vera meira en 3% af heildarmagni efnisins sem fellur til við endurvinnsluna. Talsmaður Sellafield segir að kílóin 30 svari til um 0,1% af heildarmagninu.

The Times hefur hins vegar eftir óháðum sérfræðingum að þeir hafi áhyggjur af málinu. „Þeir segja að þetta sé bókhaldsvandamál en ég hefði haldið að þeir myndu grípa til sérstakra ráðstafana í ljósi alþjóðlegra viðhorfa og ótta við hryðjuverkastarfsemi," hefur blaðið eftir sérfræðingnum John Large.

Annar sérfræðingur, Frank Barnaby, segir að það sé ekki óalgengt að ekki sé hægt að gera grein fyrir öllu geislavirku efni sem falli til en þetta sé hins vegar mikið magn.

Kjarnastangir, sem hafa verið í notkun í kjarnorkuverum í um 5 ár, eru fluttar til Sellafield til endurvinnslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert