Stuðningur við ESB-aðild eykst og andstaða við evru minnkar

Meirihluti þjóðarinnar er andvígur því að evra verði tekin upp …
Meirihluti þjóðarinnar er andvígur því að evra verði tekin upp í stað krónu. AP

Stuðningur meðal almennings við aðild að Evrópusambandinu hefur aukist milli ára að því er kemur fram í skoðanakönnun sem Samtök iðnaðarins hafa látið gera og kynnt var á Iðnþingi í morgun. Þá hefur einnig dregið úr andstöðu við að evra verði tekinn upp sem gjaldmiðill í stað krónu en enn er þó meirihluti andvígur því.

Samtök iðnaðarins hafa í nokkur ár kannað afstöðu bæði almennings og félagsmanna samtakanna. Í könnuninni nú var í fyrsta lagi spurt: Ertu hlynntur eða andvígur aðild Íslands að ESB? 45% þátttakenda í hópi almennings sögðust hlynnt aðild, 34% andvíg en 21% sagðist ekki hafa skoðun. Í samskonar könnun í fyrra sögðust 42% vera hlynnt aðild, 37% andvíg og 21% höfðu ekki skoðun.

Þegar félagsmenn innan Samtaka iðnaðarins voru spurðir þessarar spurningar sögðust 49% vera hlynnt aðild, 35% andvíg og 16% sögðust ekki hafa skoðun. Í fyrra svöruðu 43% játandi og sama hlutfall svaraði neitandi en 14% höfðu ekki skoðun.

Einnig var spurt: Vilt þú taka upp aðildarviðræður við ESB? Í hópi almennings svöruðu 59% játandi, 25% neitandi og 16% sögðust ekki hafa skoðun. Í fyrra sögðu 61% já, 24% nei og 15% sögðust ekki hafa skoðun á málinu.

Þegar félagsmenn Samtaka iðnaðarins voru spurðir sömu spurningar svöruðu 64% játandi, 24% neitandi en 11% sögðust ekki hafa skoðun. Í fyrra sögðu 67% já, 27% nei og 6% sögðu hvorki né.

Einnig var spurt hvort viðkomandi væru hlynntir eða andvígir því að taka upp evru í stað krónu. Í hópi almennings voru 37% hlynntir því, 51% andvíg en 12 höfðu ekki skoðun. Í fyrra sögðust 37% vera hlynnt evru, 54% voru andvíg henni og 9% höfðu ekki skoðun.

Af félagsmönnum Samtaka iðnaðarins sögðust 60% vilja taka upp evru, 30% voru því andvíg og 10% höfðu ekki skoðun. Í fyrra sögðust 55% fylgjandi því að evra væri tekin upp í stað krónu, 37% voru andvíg því og 8% hlutlaus.

IMG Gallup gerði könnunina fyrir Samtök iðnaðarins dagana 9.-22 febrúar. Í könnuninni meðal var 1350 manna slembiúrtak úr þjóðskrá Fjöldi svarenda var 801 og svarhlutfall 62%. Könnunin meðal félagsmanna SI var gerð 9.-25. febrúar og var lagskipt úrtak úr félagaskrá. Fjöldi svarenda var 396 eða um það bil 34% félagsmanna og svarhlutfall var 74,6%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert