Kröfu foreldra Schiavo hafnað

Teikning af því þegar George Felos, lögmaður Michaels Schiavos, ávarpar …
Teikning af því þegar George Felos, lögmaður Michaels Schiavos, ávarpar James Whittemore, dómara. AP

Alríkisdómari í Bandaríkjunum hafnaði fyrir stundu kröfu um að bandarísku konunni Terri Schiavo verði gefin næring í æð. Schiavo, sem er alvarlega heilasködduð, hefur ekki fengið vökva eða næringu frá því á föstudag en Bandaríkjaþing og Bandaríkjaforseti heimiluðu foreldrum hennar með sérstakri lagasetningu, að áfrýja málinu til alríkisdómstóls.

Dómarinn sagði í úrskurði sínum að foreldrar Schiavo hefðu ekki fært rök fyrir því í máli sínu að nokkur von væri til þess að einhver breyting geti orðið á ástandi hennar. Lögmaður þeirra sagði að úrskurðinum yrði án tafar áfrýjað til áfrýjunardómstóls í Atlanta en sá dómstóll hefur þegar verið beðinn um að fjalla um hvort brotið hafi verið á réttindum Schiavo í málsmeðferðinni allri.

Schiavo hefur verið haldið lifandi með vélum frá því hún fékk hjartastopp fyrir fimmtán árum og hlaut miklar heilaskemmdir. Foreldrarnir hafa barist gegn því að hún verði látin deyja en Michael Schiavo, eiginmaður Schiavo, sem hefur forræði yfir henni, gaf fyrirmæli um það á föstudag, að slanga, sem séð hefur Terri fyrir næringu, yrði tekin úr sambandi eftir að hafa fengið til þess heimild ríkisdómstóls. Bandaríkjaþing samþykkti á sunnudagskvöld löggjöf sem heimilaði foreldrum Terri að leggja þennan úrskurð fyrir alríkisdómara.

Michael Schiavo, eiginmaður Terri Schiavo.
Michael Schiavo, eiginmaður Terri Schiavo. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert