Bandaríkin leggja fram formlega framsalskröfu vegna Fischers

Bobby Fischer að tafli.
Bobby Fischer að tafli.

Bandaríkin hafa lagt fram formlega framsalskröfu vegna skákmeistarans Bobby Fischers, samkvæmt því sem fram kemur í japönskum fjölmiðlum í dag. Þórður Ægir Óskarsson, sendiherra Íslands í Japan, segist ekki hafa fengið upplýsingar um þetta nema úr fjölmiðlum en aðspurður sagði hann ljóst að þetta gæti flækt mál Fischers, þar sem formleg framsalskrafa hafi fram að þessu ekki legið fyrir.

Þórður Ægir sagði í samtali við blaðamann Fréttavefjar Morgunblaðsins í morgun að hann hefði sent japanska dómsmálaráðuneytinu gögn varðandi íslenskt ríkisfang Fischers í dag en ekki fengið nein viðbrögð við því enn sem komið er. Hann geti því ekkert sagt um framvindu málsins í japanska stjórnkerfinu á þessari stundu.

Japanir hafi þó þegar sagt að þeir væru að vinna í málinu og að þeir legðu áherslu á að gera það hratt. Engin fyrirheit hafi hins vegar verið gefin varðandi útkomu þess eða hvenær hennar sé að vænta. Þá geti þó flækt málið hafi Bandaríkin lagt fram formlega framsalskröfu eins og japanskir fjölmiðlar hafi greint frá.

Japanska fréttastofan Kyodo segir að í morgun að Adam Ereli, aðstoðartalsmaður bandaríska dómsmálaráðuneytisins í Washington, hafi sagt blaðamönnum þar að farið hafi verið fram á að Fischer verði framseldur frá Japan til Bandaríkjanna.

Ereli lýsti vonbrigðum með þá ákvörðun íslenskra stjórnvalda að veita Fischer ríkisborgararétt. „Þetta veldur okkur vonbrigðum. Fischer er á flótta undan lögum og reglu. Það er í gildi handtökuskipan á hendur honum. Hann hefur verið handtekinn í Japan og á yfir höfði sér brottvísun úr landi og eftir því bíðum við," sagði Ereli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert