Fréttastjóri rekinn vegna seinagangs í fréttum um andlát páfa

Fréttastjóri hjá ungverska ríkissjónvarpinu var rekinn úr starfi í dag vegna þess hversu seint sjónvarpið flutti þær fréttir að Jóhannes Páll II páfi hefði látist, að því er fram kemur í yfirlýsingu sem stöðin sendi frá sér.

Zoltan Rudi, forstöðumaður ríkissjónvarpsins, sagði fréttastjóranum, Gyorgy Nika, upp störfum vegna málsins.

Þegar fréttaflutningur af andláti páfa var skoðaður kom í ljós að ríkissjónvarpið rauf hefðbundna dagskrá laugardagsins til þess að tilkynna að páfi væri látinn 27 mínútum eftir að ríkisfréttastofna MTI skýrði fyrst frá andláti páfa.

Önnur sjónvarpsstöð í eigu ríkisins og allnokkrar einkareknar stöðvar fluttu fréttir af andláti páfa mun fyrr en Ungverska sjónvarpið, sem þekkt er undir skammstöfuninni MTV í Ungverjalandi.

„Við væntum þess að ungverskur almenningur fái að frétta af heimsviðburðum hjá Ungverska sjónvarpinu,“ sagði í yfirlýsingunni. „Þegar andlát páfa bar að stóð stöðin ekki undir þessum væntingum,“ segir einnig í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert