„Kannabisamman" fékk skilorðsbundinn dóm

66 ára gömul bresk amma, sem bakaði kökur blandaðar kannabis, var í morgun dæmd í 6 mánaða skilorðsbundið fangelsi. Konan, sem heitir Patricia Tabram, viðurkenndi að hafa haft kannabis undir höndum og ætlað að dreifa því frá heimili sínu.

Tabram hefur vakið mikla athygli í Bretlandi og hefur henni verið hampað í fjölmiðlum. Dómarinn sagði, þegar hann kvað upp dóminn, að eðlilegt væri að dæma hana í fangelsi en ekki hefði farið framhjá mönnum, að Tabram hefði orðið miðpunktur fjölmiðlafárs. Hugsanlega væri hún að reyna að fá dómstólana til að gera sig að píslarvætti en það sagðist dómarinn ekki ætla að láta eftir henni.

Tabram segist hafa byrjað að nota kannabis á síðasta ári til að draga úr háls- og bakverkjum. Hún hóf að baka kökur með kannabis og gaf vinum og nágrönnum sínum að smakka. Lögreglan fékk ábendingu um hvað fram færi í húsi ömmunnar og gerði tvívegis húsleit á síðasta ári og lagði hald á 31 kannabisplöntu sem var í ræktun á hanabjálkanum.

Tabram hefur baðað sig í sviðsljósinu undanfarna mánuði og væntanleg er frá henni bók, sem nefnist: Amma borðar kannabis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert