Ratzinger kjörinn páfi

Joseph Ratzinger kemur út á svalir Péturskirkju eftir að hafa …
Joseph Ratzinger kemur út á svalir Péturskirkju eftir að hafa verið kjörinn páfi. AP

Þýski kardínálinn Joseph Ratzinger hefur verið kjörinn nýr páfi rómversk-kaþólsku kirkjunnar. Tilkynnt var af svölum Péturskirkjunnar, að Ratzinger hefði tekið sér nafnið Benedikt XVI. Ratzinger, sem er 78 ára gamall, er 265. páfinn í sögunni. Páfakjörið tók óvenju stuttan tíma í þetta skipti. Það hófst í gær og er talið að 4 eða 5 atkvæðagreiðslur hafi farið fram.

Ratzinger kom út á svalir Péturskirkju eftir Jorge Arturo Medina Estivez, kardínáli hafði komið út á svalirnar og tilkynnt að páfi hefði verið kjörinn. Páfi flutti stutt ávarp og sagði: „Kæru bræður og systur, eftir hinn mikla páfa Jóhannes Pál II hafa kardínálarnir valið mig, einfaldan og auðmjúkan verkamann í víngarði drottins." Ratzinger blessaði hann mannfjöldann á Péturstorgi í fyrsta skipti. Talið er að um 100 þúsund manns séu nú á Péturstorginu til að fylgjast með atburðum. Gífurleg fagnaðarlæti brutust út þegar ljós reykur kom upp úr reykháfi á þaki Sixtusarkapellunnar en það gaf til kynna að nýr páfi hefði verið kjörinn. Fagnaðarlætin mögnuðust þegar klukkum Péturskirkjunnar var hringt til staðfestingar á páfakjörinu.

Ratzinger hefur verið yfirmaður kardínálaráðsins lengi en hann var skipaður kardínáli árið 1977. Hann þykir afar íhaldssamur og í stólræðu, sem hann flutti í gær við upphaf kardínálasamkomunnar, varði hann kenningar kirkjunnar og gagnrýndi það sem hann kallaði „alræði afstæðishyggjunnar", eða þeirrar afstöðu að ekki séu til nein algild sannindi.

Mikil fagnaðarlæti brutust út á Péturstorgi þegar ljóst var að …
Mikil fagnaðarlæti brutust út á Péturstorgi þegar ljóst var að nýr páfi hafði verið kjörinn. AP
Hvítur reykur steig upp úr reykháfi á Sixtusarkapellunni laust fyrir …
Hvítur reykur steig upp úr reykháfi á Sixtusarkapellunni laust fyrir klukkan 16 í dag. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert