Ofurþota Airbus lent eftir nær fjögurra stunda fyrsta flug

A380-þotan er stærsta farþegaflugvél heims.
A380-þotan er stærsta farþegaflugvél heims. ap

Ofurþota Airbus-flugvélaverksmiðjanna, A380-þotan, var rétt í þessu að lenda eftir 3:53 stunda fyrsta tilraunaflug sitt. Lendingin gekk eins og í sögu, en lent var á Blagnac-flugvellinum í útjaðri Toulouse í suðvesturhluta Frakklands þar sem flugvélasmiðjur Airbus er að finna. Tugþúsundir áhorfenda við flugvallarjaðarinn fylgdust með er tveggja hæða þotan sveif inn til lendingar og klöppuðu ákaft er hún snerti brautina.

Fyrsta flugið, sem hófst klukkan 10:29 að staðartíma og lauk klukkan 14:22, kl. 8:29 til 12:22 að íslenskum tíma, fór að öllu leyti fram yfir Frakklandi. Um borð í þotunni voru 20 tonn af mælitækjum sem öfluðu gagna um flugið og voru þau send jafnóðum til Airbus-verksmiðjanna í Toulouse.

Hin risastóra A380-þota, sem vænghaf hennar er rúmir 80 metrar, lenti mjúklega á Blagnac-brautinni. Fyrir lendinguna hnitaði þotan nokkra hringi í nágrenni flugvallarins og var sem römmuð inn í fagurblátt himinhvolfið sem stöku blikutrefjar brutu upp.

„Fyrsta tilraunaflugið gekk afar vel og við nutum hverrar mínútu þess,“ sagði Claude Lelaie, flugstjóri þotunnar. „Það er heilmargt sem þarf að prófa en eftir þessa fyrstu reynslu af flugvélinni skynjum við möguleika þessa mikilfenglega flygildis,“ bætti Lelaie við.

Flugvélin, flaggskip Airbus, tók á loft og lenti á flugbraut 32 sem kölluð hefur verið Concorde-brautin allar götur frá því hljóðfráa fransk-enska þotan með því nafni fór í sína fyrstu flugferð þar árið 1969.

Áætlað var að fluginu lyki 22 mínútum fyrr - eða á slaginu klukkan 14 að staðartíma - en lendingu var frestað til að trufla ekki flug björgunarþyrlu sem var á leið til sjúkrahúss í Toulouse.

Um 500 blaðamenn alls staðar að úr heiminum sátu á bekkjum meðfram flugbrautinni er A380-þotan lagði upp í fyrsta flugið og um 40.000 manns höfðu safnast við girðinguna meðfram flugbrautinni til að fylgjast með flugtakinu.

Myndasyrpa frá fyrsta flugi A380-þotunnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert