Halldór ræddi við Bush um þorskastríðin

Halldór Ásgrímsson og George W. Bush ræðast við í Moskvu …
Halldór Ásgrímsson og George W. Bush ræðast við í Moskvu í morgun. mynd/Steingrímur Ólafsson

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra var viðstaddur minningarathöfn í Moskvu í morgun, þar sem þess var minnst að 60 ár voru liðin frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar. Yfir 60 þjóðarleiðtogar voru viðstaddir athöfnina og í móttöku að henni lokinni í Kreml hitti Halldór marga helstu leiðtoga heims.

Meðal þeirra voru Vladímír Pútín Rússlandsforseti, George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands, Jacques Chirac, forseti Frakklands og Junichiro Koizumi, forsætisráðherra Japans.

Halldór sagði við Morgunblaðið að það hefði sett svip sinn á athöfnina hve margir þjóðarleiðtogar voru þar samankomnir, sem og fyrrum herforingjar og hermenn sem komu að stríðinu með einum eða öðrum hætti. Skýrt hefði komið fram í ræðum manna vilji til þess að stríðslokaafmælið væri hátíð allra.

Í stuttu samtali Halldórs við Bush kom fram að Bandaríkjaforseti hefði flogið yfir Ísland í ferð sinni nú til A-Evrópu og séð mjög vel til landsins. Bush upplýsti ennfremur að hann væri að lesa kanadíska bók um sögu þorsksins, þar sem m.a. er greint frá þorskastríðum Íslendinga og Breta.

„Honum fannst þessi saga áhugaverð og hvernig tekist var á um þessa auðlind," sagði Halldór en yfirstandandi viðræður Bandaríkjanna og Íslands um varnarmál bar ekki á góma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert