Upplýsingar um að Ísland innleiði 6,5% af reglum ESB ræddar á Alþingi

Davíð Oddsson, utanríkisráðherra, sagði á Alþingi í dag, að upplýsingar, sem komið hefðu fram við athugun skrifstofu EFTA í Brussel um að 6,5% af heildarfjölda Evrópusambandsgerða undanfarinn áratug hefðu verið tekin inn í EES-samninginn, væru afar merkilegar. Þær sýndu að það væri algerlega úr lausu lofti gripið að halda því fram að Íslendingar þurfi að taka upp allar gerðir ESB án þess að geta haft áhrif á þær.

Davíð lagði fram á Alþingi í morgun svar við fyrirspurn Sigurðar Kára Kristjánssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks, þar sem þetta kom fram. Í svarinu kemur m.a. fram að í 101 tilviki á síðustu 10 árum hafa gerðir, sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn krafist lagabreytinga hér á landi.

Sigurður Kári gerði svarið að umtalsefni í upphafi þingfundar í dag og sagði að því hefði verið haldið fram fyrirvaralaust í áratug að Íslendingar innleiði 80% af öllu regluverki Evrópusambandsins inn í íslenskan rétt, m.a. af þingmönnum Samfylkingarinnar og því væri betra að ganga í Evrópusambandið til að geta haft áhrif þar. Nú hefði komið í ljós, að þessi áróður væri blekking og Íslendingar væru ekki að stimpla gerðir ESB í þeim mæli, sem haldið hefði verið fram á Alþingi.

Davíð Oddsson sagði, að í umræðu um bresku kosningarnar að undanförnu hefði komið fram að um 45% af lögum, sem breska þingið setur, kæmi boðsent frá Bussel, en þannig væri það ekki hjá Íslendingum. Raunar væri það þannig með þessi 6,5%, sem Íslendingar hefðu tekið inn í sitt regluverk, að þeir hefðu mikið um málið að segja á öllum stigum þess nema á lokastiginu, sem væri oftast nær hreint formsatriði.

„Fullyrðingar um að við tökum þetta allt saman upp hvort sem er án þess að hafa áhrif á gerðirnar eru auðvitað algerlega úr lausu lofti gripnar og þetta eru stórkostlega merkilegar upplýsingar sem hér hafa fengist fram við þessa athugun," sagði Davíð.

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, sagði að sá málflutningur, sem talsvert hefði vaðið uppi, að löggjafarstarf í EES-löndunum væri fyrst og fremst ljósritun af gerðum og ákvörðunum Evrópusambandsins, hryndi til grunna með þessum upplýsingum.

Steingrímur sagði að þetta dragi auðvitað fram þann reginmun, sem væri á EES-samningnum með öllum hans kostum og göllum og aðild að Evrópusambandinu vegna þess að landbúnaðarstefna og sjávarútvegsstefna ESB og tollamál væru utan gildissviðs ESS-samningsins.

Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að þessar upplýsingar væru þarfar en hann væri sannfærður um að Ísland ætti að sækja um aðild að ESB sem allra fyrst. Fjöldamargt annað en lýðræðisleg aðkoma að lagasetningarferlinu knýi á um aðildarumsókn. Spurði hann hver viðbrögð Íslendinga ættu að vera þegar Norðmenn sæktu um aðild í þriðja sinn og þegar EES-samningurinn liði þar með undir lok.

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði að engar líkur væru á að Noregur væri á leið inn í ESB og því síður væri EES-samningurinn að líða undir lok.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingar, sagðist ekki fá betur sé en að umrædd 6,5% gerða ESB séu af heildarfjöldanum en legið hafi fyrir í 10 ár að EES-samningurinn næði ekki til allrar starfsemi Evrópusambandsins. Því þyrfti að reikna þessa prósentutölu upp á nýtt. Hins vegar ættu þingmenn að geta látið þvargi lokið í nefndum Alþingis um að Brussel ráði öllu og Alþingi geri ekki annað en innleiða gerðir frá ESB. Nú hljóti þingmenn Sjálfstæðisflokksins að taka glaðir við því litla sem kemur frá Evrópusambandinu.

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, sagði að upplýsingarnar staðfesti það sem nefndarmenn í Evrópustefnunefnd hefðu orðið áskynja að undanförnu og tölur um að allt að 80% þess sem Evrópusambandið ákvæði sé innleitt hér væru algerlega rangar. Björn sagði, að nefndin hefði einnig farið yfir það hvaða möguleika Íslendingar hefðu til að hafa áhrif á þessar gerðir og koma fram sjónarmiðum sínum. „Það er ljóst að við nýtum ekki öll þau tækifæri sem höfum í því efni, til að hafa áhrif á þessar gerðir sem snerta fjórfrelsið og snerta samninginn um Evrópska efnahagssvæðið," sagði Björn.

Hann sagðist einnig vilja mótmæla því að EES-samningurinn líði undir lok þótt Norðmenn gengju í ESB. Þegar samningurinn hefðu verið gerður á sínum tíma hefðu Norðmenn ætlað að ganga í ESB en hafnað aðild síðan í þjóðaratkvæðagreiðslu. Enginn bilbugur hefði verið á neinum, sem stóðu að gerð samningsins, um að hann myndi halda gildi sínu þótt Norðmenn hefðu þá samþykkt að ganga í Evrópusambandið.

Svar utanríkisráðherra um ESB-gerðir

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert