Tíðar frostnætur í maí

Húsvíkingar þurftu að hreinsa snjó af bílum sínum um helgina.
Húsvíkingar þurftu að hreinsa snjó af bílum sínum um helgina. mbl.is/Hafþór

Veðurstofan segir, að það sem af sé þessum maímánuði hafi frostnætur verið alltíðar. Láti næri að í innsveitum hafi mælst frost aðra hverja nótt í mánuðinum. Þannig hafa frostnætur verið 12 á Hjarðarlandi í Biskupstungum og 13 á Staðarhóli í Aðaldal.

Í Reykjavík hefur næturfrost einnig verið oftar en venja er til eða 8 sinnum líkt og á Akureyri.

Mánuðurinn hefur hingað til verið heldur kaldari en í meðalári, en á Norðurlandi hefur meðalhitinn verið svipaður á sama tíma undanfarin þrjú ár. Það sem af er mánaðarins hefur einnig verið þurrt og úrkoman mælst um eða innan við 10 mm í flestum landshlutum að undanskildu norðausturlandi.

Veðurstofan segir, að gróðurframvindan hafi þetta vorið verið heldur hæg af þessum sökum, en bendir jafnframt á, að einkennisveðurlag maímánaðar sé hár loftþrýstingur með björtu veðri og lítilli úrkomu, þar sem norðanátt sé gjarnan ríkjandi.

Veðurstofan gerir ekki ráð fyrir teljandi breytingum í spá sinni fyrir komandi viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert