Franskir fjölmiðlar: Úrslitin áfall fyrir Chirac og stefnu hans

Forsíða Le Figaro í dag.
Forsíða Le Figaro í dag. AP

Afgerandi höfnun franskra kjósenda á stjórnarskrá Evrópusambandsins er áfall fyrir Jacques Chirac forseta og ráðandi stjórnmálaöfl. Um þetta eru frönsk dagblöð á einu máli í dag. „Chiracisminn er nú úr sér gengin kenning,“ voru skilaboðin frá dagblaði í Brest, og endurómuðu í leiðurum blaða um land allt.

„Atkvæðagreiðslan er tvímælalaust jarðskjálfti,“ sagði dálkahöfundur viðskiptablaðsins La Tribune. Liberation sagði kosningarnar hafa verið „meistarastykki í sjálfspíningum“ og talaði um „stjórnmálastétt með höfuðið falið í sandinum, vön því að hafa í mörg ár farið með lygar, fræga að endemum og í vasanum á forsetanum“.

„Reiði Frakka skekur Evrópu,“ æpti blaðið Ouest-France í fyrirsögn, og ritstjórinn sagði í leiðara að tími væri kominn til að „hætta að ásaka Evrópu fyrir allt það sem aflaga fer hjá okkur“. Blaðið Le Figaro sagði að Frakkar hefðu gert sér grein fyrir því í hverju vald þeirra væri í rauninni fólgið, „að sveigja evrópsku stjórnarskrána í samræmi við sinn eigin vilja, og þar með örlög 450 milljóna manna“.

Í leiðurum allmargra blaða er talað um að margir kjósendur hafi greitt atkvæð gegn stjórnmálastéttinni, fremur en stjórnarskrá Evrópusambandsins. Blaðið Presse de la Manche talaði um „rofin tengsl almennings og stjórnmálastéttarinnar“.

En blöðin beindu spjótum sínum fyrst og fremst að Chirac. „Helsta fórnarlambið að þessu sinni var forseti Lýðveldisins ... Það er ekki staða Frakklands sem hefur veikst vegna úrslitanna heldur staða Chiracs. Og með honum ríkisstjórnarinnar allrar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert