Karlar gifta sig að jafnaði þrítugir en konur 27 ára

Langflest hjónabönd eiga sér stað að undangenginni óvígðri sambúð og segir Hagstofan að samkvæmt upplýsingum á hjónavígsluskýrslum bjuggu nær níu af hverjum tíu hjónaefnum saman áður en þau festu ráð sitt. Þetta hefur haft í för með sér að giftingaraldur hefur farið hækkandi á undanförnum áratugum. Tíðasti giftingaraldur ókvæntra karla var 30 ár á árinu 2004 samanborið við 21 ár á árabilinu 1961-1965 og ógiftra kvenna 27 ár samanborið við 19 ár á árabilinu 1961-1965.

Á árinu 2004 voru 1472 hjónvígslur hér á landi. 17 pör staðfestu samvist, níu pör karla og átta pör kvenna. Lögskilnaðir voru 552 og 3 pör í staðfestri samvist skildu að lögum. Giftingartíðni reiknuð sem fjöldi hjónavígslna af 1000 íbúum var 5 og skilnaðartíðni 1,9.

Hagstofan segir, að giftingartíðni hafi verið háð allmiklum sveiflum á undanförnum áratugum. Á 7. áratugnum og upphafi þess 8. var hún í kringum 8 af 1000 íbúum en lækkaði ört eftir það. Lægst varð hún á árunum í kringum 1990 en þá féll hún niður fyrir 5 af 1000 íbúum. Giftingartíðni hefur hækkað nokkuð síðan þá, mest fjölgun hjónavígslna varð á síðustu 3 árum 20. aldarinnar. Giftingartíðni hér á landi er álíka há og í Noregi og Finnlandi. Af Norðurlöndunum er hún langhæst í Danmörku (nær 7 af 1000 íbúum) en lægst í Svíþjóð (um 4 af 1000 íbúum).

Skilnaðartíðni lægst hér á landi af Norðurlöndum
Hagstofan segir, að skilnaðartíðni hafi verið háð mun minni sveiflum en giftingartíðni á undanförnum 20 árum. Við upphaf 7. áratugarins var skilnaðartíðni 1 af hverjum 1000 íbúum en hækkaði ört á 7. og 8. ártugnum. Við upphaf 9. áratugarins var skilnaðartíðni orðin 2 af 1000 íbúum en síðan þá hafa engar breytingar orðið á skilnaðartíðni. Í samanburði við hin Norðurlöndin er skilnaðartíðni afar lág hér á landi. Hæst er hún í Danmörku 2,8 af 1000 íbúum en annars staðar utan Íslands 2,3-2,6. Hagstofan segir, að í ljósi þess að giftingartíðni í Danmörku sé hæst á Norðurlöndum komi í sjálfu sér ekki á óvart að skilnaðartíðni þar sé einnig hæst. Í þessu sambandi sé ljóst að á Íslandi endi mun færri hjónabönd með skilnaði en í nágrannalöndunum.

Meðal þeirra 670 para sem slitu sambúð hér á landi á árinu 2004 voru 397 með börn undir 18 ára aldri og af 552 hjónum sem skildu að lögum voru 341 með börn. Alls voru börn úr skilnuðum og sambúðarslitum 1201. Nú er algengast að forsjá barna sé í höndum beggja foreldra eftir lögskilnað og sambúðarslit. Árið 2003 átti þetta við í 75,8% tilvika eftir sambúðarslit samanborið við 60,7% eftir lögskilnað. Í 35,5 % tilvika fór móðir með forsjá eftir lögskilnað og í 23% eftir sambúðarslit. Afar sjaldgæft er að faðir fari einn með forsjá.

Hagstofan

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert