Ískalt víða í Evrópu

Sundlaug í Lofer í Salzburg-héraði er mannlaus, enginn getur farið …
Sundlaug í Lofer í Salzburg-héraði er mannlaus, enginn getur farið í sund í kuldanum sem þar er. mbl.is

Það er komið sumar en það er ískalt í stærstum hluta Evrópu. Í Austurríki snjóaði í dag, svo mikið sums staðar að yfirvöld þurftu að láta loka nokkrum vegum fyrir bílum sem ekki voru með snjókeðjur. Þá hefur hitastig farið niður fyrir frostmark í sumum hlutum Króatíu, Englands og Skotlands, fólki til mikillar armæðu.

Júnímánuður hefur jafnvel verið kaldur á Ítalíu, þar sem yfirleitt er hlýtt á þessum tíma árs. Embættismenn segja að kuldatíðin og haglél hafi valdið skaða upp á milljónir evra vegna skemmda á uppskeru.

Í landbúnaðarhéruðum nálægt Verona í Norðaustur-Ítalíu hefur á bilinu 30-40% epla- og ferskjuuppskeru eyðilagst eftir að mikið haglél buldi á trjánum.

Í Róm gerði miklar rigningar og storm í nótt og flæddi yfir sumar götur borgarinnar. Tré rifnuðu upp með rótum og yfirvöld þurftu að loka nokkrum götum.

Allt að 30-40 cm snjór lá yfir götum bæja í austurrísku ölpunum í dag og þurfti að kalla til björgunarfólk til að ná fólki út úr bílum sem sátu fastir. Þá fór hiti í höfuðborginni Vín niður í 7 gráður.

Á hinn bóginn er hitabylgja í Portúgal og eru slökkviliðsmenn í viðbragðsstöðu af ótta við að skógareldar brjótist út.

Slæmt veður hefur verið í Króatíu, miklar rigningar og rok, og hitastig fór niður í -3 gráður á einum stað í dag. Björgunarsveitir leita nú tveggja ferðamanna, þjóðverja sem rokið hreif út af seglbáti hans og brimbrettamanns.

Þá hefur verið óvenju kalt á mörgum stöðum í Þýskalandi, þar sem hiti fór niður í 2 gráður í nótt. Sömu sögu er að segja af Bretlandi þar sem hitastig fór niður í -1,1 í þorpinu Aboyne í Skotlandi. Áfram er spáð kuldatíð.

Þrjár manneskjur skýla sér fyrir rigningunni í Berlín á sunnudag.
Þrjár manneskjur skýla sér fyrir rigningunni í Berlín á sunnudag. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert