Maður handtekinn í Pakistan fyrir að vanhelga Kóraninn

Lögregla í Pakistan hefur handtekið kristinn mann sem sakaður er um að hafa vanvirt Kóraninn, í norðvesturhluta landsins að því er embættismenn greindu frá í dag. Þá voru átta manns handteknir í bænum Nowshera um 40 km austur af Peshawar eftir að kveikt var í musteri hindúa í mótmælum sem virðast hafa orðið vegna meintrar vanvirðingar á Kóraninum.

„Við höfum handtekið kristinn mann fyrir að vanvirða hina heilögu bók Kóraninn og átta aðra sem réðust á musteri hindúa,“ sagði Zafar Azam, ráðherra dómsmála í norðvestlægu landamærahéruðunum.

Maðurinn sem var handtekinn er hreingerningamaður og hafði sópað saman blaðsíðum úr Kóraninum þegar hann var að taka til í mannlausri íbúð og kveikt í þeim ásamt rusli, að því er Azam sagði.

Hópur múslima sem sá þetta réðst á musteri hindúa og kveikti í því. Ekki er ljóst hvers vegna ráðist var að musteri hindúa.

Gur Sardar Lal, hindúi og þingmaður í landinu, krafðist þess að betri öryggisgæslu yrði komið á við bænahús minnihlutahópa. „Minnihlutahópum finnst þeim vera ógnað og ríkisstjórnin ætti að sjá til þess að þeir séu öruggir,“ sagði Lal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert