24 börn fórust í sjálfsmorðsárás í Írak

Tuttugu og fjögur írösk börn og bandarískur hermaður létu lífið þegar bílsprengja sprakk í austurhluta Bagdad, höfuðborgar Íraks, í morgun. Þá særðust 18 börn til viðbótar og tveir bandarískir hermenn í tilræðinu samkvæmt upplýsingum bandaríska hersins í landinu.

Árásarmaðurinn ók bíl sínum að bílalest bandarískra herjeppa og sprengdi síðan sprengju í bílnum. Bandarísku hermennirnir höfðu ekið inn í Al-Jediah hverfið í borginni til að vara íbúa þar við að sjálfsmorðsárás kynni að vera yfirvofandi. Börn söfnuðust saman umhverfis hermennina sem gáfu þeim sætindi. Skyndilega kom árásarmaðurinn akandi og sprengdi bíl sinn fyrirvaralaust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert