Farþegum neðanjarðarlesta í Kaupmannahöfn fækkaði um fjórðung

Farþegum neðanjarðarlestakerfis Kaupmannahafnar fækkaði um fjórðung í síðasta mánuði. Er hryðjuverkunum í Lundúnum í sama mánuði kennt um fækkunina. 2,1 milljón farþega ferðaðist með neðanjarðarlestum borgarinnar. Á sama tíma í fyrra nýttu 2,8 milljónir manna sér þennan samgöngumáta.

Anne-Grethe Foss, yfirmaður hjá Ørestad Development Corporation, sem sér um rekstur neðanjarðarlestanna, sagði að óvenju gott veður og tíðar bilanir í lestunum séu ástæður þess að fólk tók í auknum mæli upp á því að ferðast með einkabílum og reiðhjólum í síðasta mánuði.

Þegar hryðjuverk voru framin í lestum og strætisvagni í Lundúnum 7. júlí síðastliðinn fækkaði farþegum með lestum í Kaupmannahöfn um 14.000 á degi hverjum.

Á vefsíðu herskárra múslíma hefur komið fram að til greina komi að fremja hryðjuverk í Kaupmannahöfn en 500 danskir hermenn eru við störf í Írak.

Neðanjarðarlestakerfi Kaupmannahafnar var tekið í notkun árið 2002.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert