Talsmenn íslenskra flugfélaga fagna samkeppni frá British Airways

757-þota Flugleiða, TF-FIN, og 737-þota Iceland Express á Keflavíkurflugvelli.
757-þota Flugleiða, TF-FIN, og 737-þota Iceland Express á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Hilmar Bragi

Talsmenn íslensku flugfélaganna, Icelandair og Iceland Express, segjast fagna hinni væntanlegu samkeppni frá British Airways á flugi milli Keflavíkur og Lundúna, og segjast ekki ætla að bregðast sérstaklega við henni. British Airways hefur áætlunarflug milli Gatwick í Lundúnum og Keflavíkur í mars á næsta ári. Flogið verður fimm sinnum í viku frá og með sunnudeginum 26. mars 2006.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að félagið sé tilbúið í hina nýju samkeppni. „Þessi markaður hefur farið vaxandi. Það hefur mikið markaðsstarf verið unnið í London og í Bretlandi almennt þannig að farþegum hefur fjölgað verulega á þessum leiðum. Við erum alltaf til í alla samkeppni á öllum leiðum milli Íslands og annarra landa. Við erum því til í þessa samkeppni líkt og annars staðar,“ segir Guðjón.

Aðspurður segir Guðjón að Icelandair muni ekki bregðast sérstaklega við samkeppninni. „Nei, þetta breytir ekki okkar áætlunum,“ segir Guðjón.

Birgir Jónsson, framkvæmdastjóri Iceland Express, hafði ekki heyrt af væntanlegri samkeppni frá British Airways þegar blaðamaður fréttavefjar Morgunblaðsins hafði samband við hann nú fyrir hádegið. Hann sagði sín fyrstu viðbrögð við fréttunum vera mjög jákvæð. „Iceland Express fagnar samkeppninni alveg klárlega. Ég held að við höfum sýnt það að markaðurinn stækkar þegar pípan stækkar, ef maður getur orðað það þannig. Þannig að ég held að þetta verði bara öllum til góða,“ segir Birgir.

Aðspurður segir Birgir að fyrirtækið muni ekki bregðast sérstaklega við samkeppninni. „Við erum nú þegar í mjög harðri samkeppni við Icelandair, þannig að við höldum bara áfram að slást. Ég held að þetta sé mjög jákvætt fyrir alla,“

Birgir segir að þeirra verð séu almennt lægri en þau sem British Airways munu bjóða, en verð á farmiðum hjá félaginu verður frá 22.990 krónum með sköttum. „Það er hægt að fara fram og til baka með okkur fyrir um 16.000 krónur. Mér finnst þetta annars bara vera í línu við það sem markaðsverðin eru. Kannski jafnvel frekar í hærri kantinum. Það segir mér það að þeir eru ekki að reyna að fara í samkeppni við okkur, heldur meira að ráðast á félög á þessum hefðbundna markaði, þó hann skarist að sjálfsögðu,“ segir Birgir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert