Segir yfirvöld hafa vitað af fjórum árásarmönnum ári fyrir 11. september

Reyk leggur frá turnum World Trade Center í New York …
Reyk leggur frá turnum World Trade Center í New York skömmu eftir árásirnar 11. september 2001. AP

Ári fyrir árásirnar á Bandaríkin 11. september árið 2001 höfðu bandarískir njósnarar tengt fjóra menn, sem síðar tóku þátt í árásunum, við hryðjuverkasamtökin al-Qaeda. Njósnararnir óskuðu eftir því að upplýsingunum yrði komið til bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, en þeirri beiðni var hafnað, að því er Curt Weldon, bandarískur þingmaður, hefur greint frá.

Weldon er þekktur fyrir djarfar yfirlýsingar en yfirlýsing hans er tekin alvarlega eftir staðhæfingar fyrrverandi yfirmanns bandarískrar njósnadeildar, að því er fram kemur á fréttavef BBC.

Bandaríska dagblaðið New York Times greinir frá því að yfirmaðurinn, sem ekki er nafngreindur, hafi sagt að sérstök njósnadeild hafi verið sett á laggirnar og henni verið falið leynilegt verkefni sem nefnt hafi verið „Able Danger.“

„Able Danger átti að gefa yfirvöldum þann möguleika að koma meðlimum al-Qaeda fyrir kattarnef,“ hefur blaðið eftir yfirmanninum. Einnig kemur fram að Alvin Felzenberg, fyrrum talsmaður rannsóknarnefndar sem rannsakaði aðdraganda og afleiðingar hryðjuverkaárásanna, hafi staðfest að starfsmönnum nefndarinnar hafi verið greint frá tilvist verkefnisins árið 2003.

Weldon segir að ekki hafi verið gripið til aðgerða þar sem mennirnir fjórir voru í Bandaríkjunum með löglegar vegabréfsáritanir.

Talið er að yfirlýsingar þingmannsins muni fjölga þeim gagnrýnisröddum sem segja að yfirvöld hafi getað komið í veg fyrir árásirnar þann 11. september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert