Umhverfisráðherra Ástralíu bregst ókvæða við bréfi Árna Mathiesen

Umhverfisráðherra Ástralíu, Ian Campbell, hefur brugðist ókvæða við bréfi Árna Mathiesen sjávarútvegsráðherra sem gagnrýndi Ástrala fyrir að gagnrýna vísindahvalveiðar Íslendinga í ljósi þess að Ástralir stundi sjálfir umfangsmikla fækkun á úlföldum og kengúrum. Segir Campbell það hneykslanlegt af Árna að bera þetta saman.

Þann 1. ágúst síðastliðinn sagði Campbell meðal annars að hvalveiðar Íslendinga gangi þvert á ákvörðun meirihluta Alþjóðahvalveiðiráðsins og að það þurfi ekki að slátra hvölum til að rannsaka þá. Auk þess lýsti Campbell sig andsnúinn vísindaveiðunum, sem hann sagði illa dulbúnar hvalveiðar í hagnaðarskyni.

Í bréfi sem Árni sendi Campbell um miðjan mánuðinn sagði m.a. að samkvæmt ályktun um aðferðir við hvalveiðar séu stjórnvöld ekki eingöngu hvött til að leggja fram upplýsingar um hvalveiðar, heldur einnig sambærilegar upplýsingar um veiðar á öðrum stórum spendýrum. Í því sambandi sé áhugavert að skoða veiðar á þúsundum villtra úlfalda í Ástralíu, en dýrin séu skotin úr þyrlu. Auk þess séu milljónir kengúra veiddar árlega í landinu. Árni segir að í ljósi þess hversu mikinn áhuga Campbell hafi á aðferðum Íslendinga við hvalveiðar geri hann ráð fyrir því að Ástralir muni leggja fram gögn um veiðar sínar á úlföldum og kengúrum.

Á fréttavefnum news.com.au er haft eftir Campbell: „Er maðurinn fífl? Er hann að fara fram á að við leggjum fram nákvæmar upplýsingar um líffjölbreytni á beitarlöndum á fundi um hvali? Þeir ættu að skammast sín fyrir þetta.“

Segir Campbell fráleitt að bera saman hvalveiðar og fækkun á kengúrum og úlföldum. Gífurleg fjölgun úlfalda og kengúra á bújörðum og beitarlandi í Ástralíu hafi leitt til þess að í umhverfisverndarskyni hafi reynst nauðsynlegt að fækka þessum dýrum. „Að láta sér detta í hug að bera saman fækkun á kengúrum, sem gerð er í því skyni að vernda umhverfið, og hvalveiðar er hneykslanlegt,“ er haft eftir Campbell.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert